Guðrún Bergmann - haus
22. október 2014

Aldrei orkumeiri

Það var ánægjulegt að fylgjast með upplýsingunum sem komu upp á skjáinn hjá henni Matthildi Þorláks í morgun. Öll gildi hjá mér hafa batnað og það hafa aldrei verið minni bólgur í líkamanum, en ég hef verið að takast á við bólgusjúkdóma í mörg ár. Hjartalæknirinn Alejandro Junger segir að bólgurnar myndist vegna eiturefna í líkamanum, sem þýðir þá væntanlega að afeitrunin hjá mér hafi tekist vel enda mældust engir þungmálmar í líkamanum. Þeir mældust hins vegar í síðustu  mælingu.

Glöðust var ég yfir því að sjá hækkun á grunnorkunni hjá mér sem nú mældist vera 70% en hefur lægst verið um 35%, svo hún hefur hækkað um helming, enda finnst mér ég aldrei hafa verið orkumeiri. Blóðvökvinn hjá mér er hreinn og fínn og hvítu blóðkornin hafa aldrei síðustu fjögur ár skinið skærar en í dag, svo kraftmikil eru þau.

Tvö kerfi sýndu viðvörunarmerki, það er smáþarmar og ristill og þess vegna hef ég ákveðið að framlengja HREIN detox-kúrnum mínum um 10 daga eða út mánuðinn. Þessi tvö kerfi hafa meira og minna verið í ólagi hjá mér frá því ég var barn og þurfa greinilega lengri "viðgerðartíma" en önnur kerfi. Eins kom fram að hægra nýra er ekki jafn sterkt og hið vinstra, en það hef ég nú vitað um nokkurn tíma. Þarf ekki annað en horfa á hægra augnlokið til að sjá það.

Ég bað Matthildi einnig um að mæla hvort ég gæti verið með snýkjudýr í þörmunum - og viti menn, það kom vægt merki um það, svo nú er að finna jurtir og remedíur til að bana þeim.

Svona rétt í lokin má svo geta þess að ég vigtaði mig í morgun og er nú 63 kg, sem þýðir að ég hef tapað 2 ½ kg í ferlinu, þótt grenning hafi ekki verið markmiðið. Passa samt aðeins betur í fötin, sem er ekki verra.