Guðrún Bergmann - haus
Þú ert hér: Guðrún Bergmann > Nýr vinkill
25. október 2014

Nýr vinkill

Áfram held ég minni vinnu í því að styrkja og efla líkamann og búa honum betra "starfsumhverfi" ef svo má að orði komast. Ég er búin að hreinsa hann svo vel með HREIN detox-kúrnum að mikið af viðgerðum hefur þegar farið fram, svo nú er bara að halda áfram og gera enn betur. Ég er búin að finna jurtablöndu sem á að hjálpa mér að losna við snýkjudýr í þörmunum (sem fleiri eru með en þá grunar) og hún gerir kröfu um að ég taki nýjan vinkil á mataræðið, því ég má ekki borða neina ávexti aðra en epli. Þess vegna detta búst með bláberjum, magnó eða blöndu af bláberjum, brómberjum og hindberjum alveg út af listanum.

Því var það grænn dús í morgunverð og svo fékk ég mér salat í hádeginu og með því fyrstu brauðsneiðina sem ég hef borðað í 25 daga. Eina sneið af glútenlausu brauði úr Brauðhúsinu í Grímsbæ. Það var himnesk tilfinning að maula aftur brauð, í þetta sinn með möndlusmjöri.

Þegar ég keyrði um hádegisbil niður á Grand Hótel til að fara í minn daglega infrarauða saunatíma kom sú hugsun upp í huga minn að ég hefði sennilega aldrei, allt frá því ég var unglingur, verið heilbrigðari en ég er í dag. Ég er orkumikil og laus við svo mikið af þeim "sjúkdómseinkennum" sem hafa verið að hrjá mig svo óralengi og hafa verið afgreidd sem sjálfsónæmissjúkdómar, án þess að á þeim fyndist lausn. Ég er líka í góðu innra jafnvægi, bæði tilfinningalega og andlega og svo sátt við sjálfa mig. Þakka því líkama mínum fyrir hversu ótrúlega duglegur hann er að endurnýja sig, þegar hann fær tækifæri til þess, en í dag fagna ég því að hafa verið í sextíu og fjögur ár á þessari jörð.