Guðrún Bergmann - haus
28. október 2014

Hrikalegar aukaverkanir

Ég er búin að komast að því að það eru hrikalegar aukaverkanir sem fylgja afeitrunarkúrnum sem ég er nú búin að vera á í 28 daga. Þær gersamlega ráða lífi mínu sem stendur. Aukaverkanirnar tengjast sennilega aukinni okru, því ég er að springa úr framkvæmdagleði. Öll verkefni sem hafa verið á "bíða þar til seinna" listanum eru nú tekin fyrir eitt af öðru. Ég fer í gegnum alla skápa og endurraða, endurmet og flokka hvað skal eiga, hvað skal selja og hvað skal gefa. Ég er í stjórn húsfélagsins þar sem ég bý og nú skal líka þar taka á "bíða þar til seinna" listanum og drífa af framkvæmdir sem hafa setið á hakanum.

Undanfarna daga hef ég farið í hverja húsgagnabúðina á fætur annarri til að finna mér nýja stóla við borðstofuborðið og ýmislegt annað sem ég rekst á í búðunum og ekki er á innkaupalistum en er keypt samt, eins og púðaver með jólamynstri og rautt teppi í IKEA, þótt ég eigi meira en nóg af slíku fyrir. Líkamsræktin mín í dag fólst í því að þramma um gólfin í nokkrum húsgagnabúðum til viðbótar, taka ákvörðun um hvað skyldi keypt og koma því svo heim. Vöðvauppbyggingu dagsins fékk ég svo við það að skrúfa saman hluti úr öllum pakkningunum, til að koma þeim í sama útlit og þeir hafa í útstillingum í búðunum. Það besta er að nú bólgna engir liðir þrátt fyrir átökin, þökk sé HREIN detox-kúrnum.

Ég fékk í morgun niðurstöður úr blóðprufunum sem teknar voru í síðustu viku. Hið ánægjulega er að flest gildin eru í fínu lagi og lifrin í mun betra ástandi en hún var þegar blóðprufa var tekin fyrir rúmum sex mánuðum síðan. Blóðflögur hafa líka hækkað úr 283 upp í 384, en viðmiðið er 150-400. TSH stýrihormónar hafa líka hækkað, en það er ekki jafn gott í því tilviki. Hærri tala sýnir meiri vanvirkni í skjaldkirtli. Læknirinn var samt á því að ég þyrfti ekki að fara á lyfin aftur. Hann sagði að ég væri greinilega að gera góða hluti fyrir líkamann og að ég skyldi bara að halda því áfram. Svo myndum við skoða stöðuna aftur eftir svona þrjá mánuði. Var sko meira en sátt við þær niðurstöður.

Á leið heim eftir verslunarleiðangur dagsins var ég svo hamingjusöm og glöð innra með mér og leið dásamlega vel. Þegar heim kom fékk ég mér bolla af Yogi Tea og á miðanum á tepokanum stóð: "Hamingjan er alltaf innra með þér."