Guðrún Bergmann - haus
29. október 2014

Eitthvað sem við ekki viljum ræða

Það er svo merkilegt að allt sem snýr að þörmunum í okkur, hægðum eða hægðavandamálum, uppþembu og meltingartruflunum, virðist vera eitthvað sem flestir forðast að ræða og samt er losun úr þessum líffærum (ristli og smáþörmum) eitt það mikilvægasta sem líkaminn gerir.

Ég er nú búin að vera í nærri heilan mánuð á afeitrunarfæði, ásamt alls konar bæti- og jurtaefnum sem ég tek inn til að styðja við HREIN detox-kúrinn, sem snýst í raun mest um að hreinsa þarmana eins vel og mögulegt er og losa þar með eiturefni úr líkamanum. Þegar í ljós koma að ég væri að öllum líkindum með snýkjudýr í þörmunum leitaði ég eftir jurtaefnum til að ráða niðurlögum þeirra inni á vefsíðunni www.active.is en þar er að finna ýmsar tegundir bæti- og jurtaefna sem eru góð fyrir líkamann. Um snýkjudýr í þörmum segir Alejandro Junger í bók sinni HREIN meðal annars:

Snýkjudýr eru lífverur sem lifa í þörmunum á okkur og vinna stöðugt að því að draga úr vellíðan okkar með því að stela næringarefnum. Yfirleitt komast þau inn í líkamann í gegnum fæðu og vatn, oft á veitingahúsum, þar sem líkur  á óhreinindum eru meiri og snýkjudýr eru algeng í mörgum þeim sem borða mikið úti. (Við náum okkur ekki bara í snýjudýrin á ferðalögum erlendis eins og flestir virðast halda).  Ein helsta vísbending um að snýkjudýr hafi tekið sér bólfestu í þörmunum er yfirleitt miklar bólgur, vegna þess að tilvist þeirra angrar ónæmiskerfið og leiðir til baráttuviðbragða.

Ég hef í gegnum tíðina borðað mikið á veitingahúsum, bæði hér heima og erlendis, og ég er viss um að á mörgum þeim stöðum sem ég hef borðað á var hreinlætið ekki upp á það besta. Ég hef hins vegar aðeins einu sinni fengið matareitrun á ferðalagi í heitari löndum, en það var áður en ég lærði að taka alltaf með mér Fernet Branca og drekka sem svarar einni matskeið á morgnana á fastandi maga. Eftir það hef ég sloppið við veikindi - en greinlega ekki snýkjudýr því þau hafa komist í þarmana, hvaða leið sem þau nú völdu sér þangað.

Í dag fór ég í fjórðu ristilskolunina á jafnmörgum vikum. Maður hefði nú haldið að ristillinn væri orðinn nokkuð hreinn eftir rúmar fjórar vikur á detoxi en svo var ekki. Sú sem sér um ristilskolunina sagði að þarmarnir hjá fólki væru almennt full of shit, þótt töluvert sé farið að minnka af birgðum innan í mér og bólgurnar hafi hjaðnað. Ég hef oft í þessu ferli velt fyrir mér ástandi þarmanna hjá fólki almennt ef mínir eru svona, þrátt fyrir að ég borði almennt gott fæði og stundi reglulega hreinsanir. Kannski hef ég aldrei fyrr farið nógu djúpt og er nú að ná í dreggjarnar.