Guðrún Bergmann - haus
2. nóvember 2014

Eins og prinsessan á bauninni

Ég veit ekki hversu margir þekkja sögu H.C. Andersen af prinsessunni sem var svo næm að þegar hún svaf í rúmi með 30 dýnum fann hún samt fyrir baun sem sett hafði verið undir þá neðstu. Þessa sögu las móðir mín oft fyrir mig þegar ég var barn og ég sjálf svo þegar ég var orðin læs. Hún rifjaðist upp fyrir mér mörgum árum seinna þegar ég virtist finna fyrir öllu sem ég setti ofan í mig og leiddi um tíma til kvíða fyrir hverri máltíð, því ég vissi aldrei hvort ég yrði veikari eftir hana en ég hafði verið fyrir. Ég sagði því oft að ég væri eins og prinsessan á bauninni.

Prinsessueinkennin komu svo sannarlega fram í gærkvöldi. Ég var með matarboð og vék aðeins út af mataræðinu. Ég fékk mér smá rjóma með hrákökunni sem ég hafði gert úr innihaldsefnum sem ég hefði öll átt að þola, nema í henni voru 2 teskeiðar af kókosolíu, sem virðist ekki passa mér. Og það stóð ekki á svörun frá líkamanum. Um það bil tveimur tímum eftir að ég hafði borðað fékk ég gamalreynd þreytueinkenni og vægan höfuðverk yfir neðri hluta ennis, en þetta svæði í andlitinu tengist beint við lifrina sem greinilega var ekki sátt við þessa fitu. Lausnin í stöðunni var að fara bara snemma að sofa.

Í dag var svo meiri pirringur í líkamanum en verið hefur þennan mánuð sem ég hef verið í afeitrunarferlinu. Ég þarf því ekki að velkjast í neinum vafa - kókosolía og rjómi eru greinilega matvörur sem ég á að forðast.