Guðrún Bergmann - haus
3. nóvember 2014

Stálskornir hafrar

Veistu hvað það er? Ég vissi það ekki heldur fyrr en ég rakst á poka af þeim í Kosti nýlega. Ég hafði oft séð vísað til stálskorinna (steel cut) hafra í uppskriftum á netsíðum og í blöðum sem fjalla um heilsumál, en hvergi fundið þá fyrr. Hafrarnir eru skornir í búta, væntanlega með einhverjum sérstökum stálhníf, en ekki flattir út eins og í því sem við þekkjum sem haframjöl. Og það besta er að þeir stálskornu eru glútenlausir.

Ég gerði mér graut úr þessum stálskornu höfrum í morgun og verð að segja að það er besti hafragrautur sem ég hef borðað. Það tók um 20 mínútur að sjóða hann, en í kvöld ætla ég að leggja hafrana í bleyti og þá tekur örugglega aðeins styttri tíma að sjóða þá í fyrramálið. Ég bætti bara salti og kanil út í grautinn og skar svo eitt epli út í hann eftir að ég var búin að setja hann á diskinn.

Ég held áfram í hreinsunarferlinu mínu og líður dásamlega, nú þegar ég er búin að jafna mig á "rjómasjokkinu", sem ég fékk á laugardaginn. Í dag fór ég í góðan göngutúr í vetrarsólinni og uppgötvaði þá enn einn ávinninginn af hreinsuninni. Ég hef verið oft orðið móð þegar ég hef gengið hratt upp brattar brekkur, en í dag renndi ég mér upp eina slíka á hraðferð og blés ekki úr nös - eða kannski gerði ég það, því ég andaði sérstaka jógaöndun, tvo andardrætti inn og tvo út, í gegnum nefið - svo auðvitað blés ég úr nös, bara ekki af mæði. Mér fannst það afar ánægjulegt.

Gera má ráð fyrir að þetta sé vegna hreinsunarinnar, því samkvæmt kínverskri læknisfræði eru lungun og ristillinn pöruð líffæri og þegar léttir á ristlinum, léttir líka á lungunum - og ég get andað léttar.