Guðrún Bergmann - haus
13. nóvember 2014

Magnesíum er alltaf mikilvægt

Ég hef oft áður skrifað um magnesíum, en “aldrei er góð vísa of oft kveðin”, svo ég set hér inn grein um þetta mikilvæga steinefni enn eina ferðina, enda margir sem hafa verið að spyrja mig um upplýsingar um það. Magnesíum er eitt mikilvægasta efni líkamans og í gömlum kínverskum læknisfræðum er það kallað keisarinn yfir beinabúskap okkar. Ef líkaminn hefur ekki nóg af magnesíum er hann ekki að hlaða kalki og kalsíum í beinin eins og hann á að gera. Undir bein falla einnig tennur og ef útrýma á tannskemmdum þarf að auka magnesíum inntöku gífurlega til að gera tennurnar sterkari.

Magnesíumskortur
Magnesíumskortur birtist víða því talið er að hann hafi áhrif á nánast hvert einasta líffærakerfi líkamans. Í vöðvakerfinu geta einkennin komið fram sem vöðvakippir, krampi, spenna eða eymsli í vöðvum, þar á meðal bakverkir, verkir í hnakka, spennuhöfuðverkir og stífni í kjálkavöðvum. Kannski skortir börnin sem send eru til sjúkraþjálfara vegna “tölvunotkunar” og stoðkerfavanda bara magnesíum? andvarpa mikið.

Þegar kemur að skertum samdráttarhreyfingum á vöðvum eru einkennin meðal annars hægðatregða, krampakippir við þvaglát, vöðvakrampi í tengslum við blæðingar, erfiðleikar með að kyngja, erfiðleikar með að aðlaga sig sterku ljósi og viðkvæmni gagnvart hávaða.

Svefnleysi og kvíði
Önnur merki um magnesíumskort koma oft fram í gegnum miðtaugakerfið. Þau geta meðal annars verið svefnleysi, kvíði, ofvirkni eða eirðarleysi með stöðugum hreyfingum, ofsahræðsla, víðáttufælni og hjá konum, pirringur fyrir blæðingar. Einkenni sem tengjast úttaugakerfinu eru dofi eða tilfinningaleysi, náladofi og aðrar afbrigðilegar tilfinningar svo sem kippir og titringur.

Einkenni sem tengjast hjarta- og æðakerfinu eru meðal annars hjartsláttarónot, hjartsláttartruflanir, krampi í kransæðum, hár blóðþrýstingur og sig í mítralloku (loku milli hjarta og lungna). Eitt eða fleiri þessara einkenna geta verið vísbending um að viðkomandi einstakling skorti magnesíum. Önnur almenn einkenni um magnesíumskort eru meðal annars mikil löngun í salt, bæði fíkn í og óþol gagnvart kolvetnum, sérstaklega súkkulaði og hjá konum getur skorturinn komið fram sem eymsli í brjóstum.

Magnesíum eyðist úr líkamanum
Ýmislegt leiðir til þess að magnesíum eyðist eða skolast út úr líkamanum og má þar til dæmis nefna neyslu á sykri, hvítu hveiti, áfengi og ýmsum lyfjum. Flúor eykur einnig á útskilnað á magnesíum úr líkamanum, því magnesíum binst flúori til að gera hann óskaðlegan. Líkaminn bindur svo þetta samsetta efni af flúor og magnesíum í vöðvum og sinum og er þessi efnasamsetning af sumum talið vera helsta orsök vefjagigtar.

Er hægt að taka inn of mikið af magnesíum?
Í almennri umræðu um magnesíum og mikilvægi þess (ekki allir á sama máli þar frekar enn annars staðar) hefur verið talað um hættu á ofneyslu. Eins og þeir sem lesa pistlana mína vita fór ég í 24ra daga HREIN detox-kúr í október. Á meðan ég var á kúrnum tók ég inn þrefaldan ráðlagðan dagskammt af magnesíum með sínki, því þá nýtist það best. Suma daga tók ég líka inn magnesíum í duftformi. Þetta gerði ég til að auka útskilun úr líkamanum en magnesíum örvar starfsemi lifrar, sem leiðir til þess að frá henni verður betra rennslu af gallvökva út í þarmana, sem aftur hvetur til betri hreyfinga á þeim og þar með losun þeirra.

Ég mældi árangur minn í tengslum við HREIN detox-kúrinn meðal annars með aðstoð heimilislæknis míns, því ég var líka að hætta á skjaldkirtilslyfjum og hann sendi mig því í blóðprufu þar sem magn magnesíums var m.a. mælt. Viðmiðunarmörkin fyrir magnesíum í blóði eru á bilinu 0,74-0,99. Þegar það var síðast mælt hjá mér nákvæmlega ári áður en það var mælt eftir HREIN kúrinn mældist það vera 0,84. Ég hef tekið magnesíum daglega allt þetta ár og þrefaldan skammt í 24 daga rétt áður en blóðsýni var tekið. Samt var magnesíumstaðan bara 0,91 við blóðprufuna, svo ég held að líti hætta sé á að við tökum inn of mikið af þessu mikilvæga steinefni.

Magnesíum í æð
Ekki er langt síðan það voru nánast eingöngu fæðingarlæknar sem gáfu magnesíum súlfat í æð til að lækka blóðþrýsting þungaðra kvenna eða þegar eggjahvíta fór út í þvagið hjá þeim. En upp á síðkastið hafa hefðbundnir læknar sýnt áhuga á að nota magnesíum við meðhöndlun á bráðahjartaáföllum, krónískum hjarta- og æðasjúkdómum, hjartsláttartruflunum, sykursýki, astma, síþreytu og mörgum öðrum sjúkdómum.

Heimildir: Healthy.net og Candida sveppasýking eftir Hallgrím Þ. Magnússon og Guðrúnu G. Bergmann