Guðrún Bergmann - haus
20. desember 2014

Gleðin að gefa

Ég veit ekki með ykkur, en ég elska að gefa fólki gjafir. Skemmtilegast er auðvitað ef þær koma á óvart, en í öllum gjöfum felst þó gleði. Kannski byrjaði það allt með sonum mínum og svo hefur það breiðst út til barnabarnanna. Ég held ég hafi erft þessa gleði að gefa frá móður minni. Hún hugsaði einstaklega vel um fjölskylduna alla tíð og gætti þess að gera hvorki upp á milli barna né barnabarna. Henni leit oft við heima hjá mér eftir vinnu þegar synir mínir voru litlir og færði þeim þá stundum eitthvað smávegis í leiðinni.

Ég sagði þá gjarnan við hana að hún ætti nú ekki að vera að eyða peningum sínum í gjafir handa þeim. En sama hvað ég sagði það oft, þá var svar hennar ætíð það sama. Hún sagðist gera þetta af því það veitti henni svo mikla gleði að gefa öðrum. Nú til dags heyri ég stundum mín eigin orð óma mér í eyrum, þegar ég er að leita eftir skemmtilegum gjöfum handa barnabörnunum og sé ég er alveg komin í sömu spor og hún.

Fyrir kemur að þegar ég ætla að koma einhverjum á óvart með gjöf, þá er mér líka komið á óvart. Um daginn færði ég sonardóttur minni jólasvuntu. Mér fannst sú gjöf vel við hæfi því við vorum að fara að skreyta piparkökuhús, sem reynar mistókst alveg því tilbúni glassúrinn sem við keyptum stirðnaði ekki. Sonardóttur minni fannst svuntan hins vegar svo flott að hún var með hana allan daginn. Og svo kom hún mér á óvart með gjöf til mín. Það var segull á ísskápinn minn sem hún hafði sjálf málað.

Þessi gleði mín að gefa öðrum fær svo sannarlega að njóta sín í kringum jólin. Gjafirnar þurfa ekki endilega að vera efnislegs eðlis. Þær geta verið hlýlegt knús, hjálp við þrifin, bakstur fyrir þann sem ekki getur bakað eða bara koss á kinn. Gleðin getur fylgt öllum þessum gjöfum.