Guðrún Bergmann - haus
31. desember 2014

Bestu ákvarðanir ársins

Eins og fleiri lít ég um öxl við áramót og skoða hvernig árið hefur liðið – og eins og fleiri man ég árið kannski ekki alveg í smáatriðum, en það eru toppar og lægðir í því eins og öðru og þær man maður yfirleitt.

Lægðirnar komu þegar ég missti tvo einstaklinga mér mikilvæga úr lífi mínu með stuttu millibili. Annars vegar var það faðir minn sem féll frá í maí og hins vegar ein besta vinkona mín sem féll frá í júní. Það var ekki fyrr en undir haust að ég gerði mér grein fyrir hversu mikil áhrif þessi missir hafði haft á líf mitt og heilsu, en undir álagi sér maður það sjaldnast. Tíminn mildar missinn en tómarúmið sem þessir einstaklingar skildu eftir verður í raun aldrei fyllt.

Kannski var það vegna þessara áfalla að mér fannst um tíma eins og ég ætti að fara að draga saman seglin og hægja á lífi mínu. Ég velti fyrir mér að fá mér minni íbúð og minni bíl, en komst svo að raun um að ég er alveg þrusuánægð með íbúðina mína og myndi helst vilja vera á stærri bíl, svo það gekk ekki upp. Hugsanlega var ég undir áhrifum frá vinkonum mínum sem eru að minnka við sig vinnu eða hætta alveg að vinna og ætlaði að fara að stefna í sömu átt, en sem betur fer fékk ég uppljómun.

Ég komst að raun um að ef ég gerði slíkt, væri það bein ávísun á leiðindi. Sú hugsun að það sem er ekki að vaxa, er hægt og sígandi að deyja, ýtti líka við mér. Allt mitt líf hef ég viljað vera í vaxtarferlinu, að læra eitthvað nýtt eða skapa eitthvað skemmtilegt, svo ég tók aðra af bestu ákvörðun ársins. Ég ætla að halda áfram að vera í vaxtarferlinu og er nú með ein fjögur ný verkefni í gangi, hvert öðru skemmtilegra.

Hin besta ákvörðunin var að fara á HREINT MATARÆÐI hjartasérfræðingsins Alejandro Junger. Sú ákvörðun sannaði fyrir mér með niðurstöðum úr ýmsum læknisfræðilegum rannsóknum, hversu mögnuð áhrif mataræði hefur á heilsu líkamans. Umbreytingarferlið tók aðeins þrjár vikur og var eitt af þessum skemmtilegu vaxtarferlum í lífi mínu.

Hið dásamlega er svo að lífið tók ekki bara þetta árið, því það gaf líka. Í byrjun desember fæddist yngri syni mínum og unnustu hans lítil dóttir, en í mínum huga er fæðing barns alltaf jafn stórkostlegt undur. Með þessari litlu stúlku stækkaði barnabarnahópurinn og allir þeir sem eiga barnabörn vita að í þeim er mesta ríkidæmi okkar falið. Lífið er ljúft og ég horfi full tilhlökkunar til komandi árs, um leið og ég þakka þeim sem hafa fylgst með pistlaskrifum mínum samfylgdina á þessu ári.