Guðrún Bergmann - haus
8. febrúar 2015

Hreint mataræði bætir heilsuna

hreint_mataraedi_prent_1254204.jpgÍ október í fyrra fylgdi ég í þrjár vikur eftir mataræðinu sem ráðlagt er í bókinni HREINT MATARÆÐI eftir hjartasérfræðinginn Alejandro Junger. Árangurinn var stórkostlegur og kom fram í betri líkamlegri líðan og aukinni orku. Ég skrifaði einmitt daglega pistla hér á Smartlandinu meðan ég fór í gegnum þetta ferli og fjallaði um það stig af stigi, hvernig ég skynjaði breytingarnar á eigin líkama.

Í framhaldi af þessu þriggja vikna hreinsunarmataræði, hélt ég áfram að halda nokkrar helstu grunnreglurnar sem ég lærði. Ég legg mig til dæmis fram um að veita líkamanum 12 tíma hvíld, frá því ég borða síðustu máltíð eins dags og fram að þeirri fyrstu næsta dag. Mér finnast þessar kenningar Jungers um að líkaminn þurfi átta tíma til að melta matinn og fjóra tíma til að losa sig við úrgangsefni svo rökréttar. Reyndar er þetta einn af grunnþáttunum í kínverskri læknisfræði, svo þetta er auðvitað aldagamalt ráð. Bústið á morgnana heldur áfram að vera fastur liður, en það hefur nú verið það lengi. Svo hef ég tekið eftir því að ég er hætt að kaupa hluta af þeim fæðutegundum, sem voru á listanum yfir það sem átti að forðast, einfaldlega af því að mér líður betur án þeirra.

HREINT MATARÆÐI er að koma út hjá Bókaútgáfunni Sölku í næstu viku. Hægt er að kaupa bókina í forsölu með góðum afslætti. Þar sem ég bý yfir reynslu af þessu mataræði og því hvað 3ja vikna hreinsunarferlið gerir manni gott, kem ég til með að vera með stuðningsnámskeið fyrir þá sem vilja bæta heilsuna með hreinu mataræði. Nánari upplýsingar um það er að finna hér.