Guðrún Bergmann - haus
4. apríl 2015

Þitt framlag telur

graennapril-profilemynd-01_1257491.jpgMargir eru haldnir þeirri hugsanavillu að þeirra framlag til umhverfismála skipti engu, því það séu svo margir umhverfissóðar í heiminum  - og því sé í lagi að halda sig bara í þeim hópi líka. En þar sem ALLT sem við gerum skiptir máli, hvort sem það snýr að umhverfinu eða einhverju öðru, er þetta hugsanavilla. Það er með átaki fárra sem fleiri fylgja á eftir og ef við bætum sífellt í hóp þeirra sem eru meðvitaðir um að þeirra framlag skipti máli, tekst okkur saman á einhverjum tímapunkti að gera áþreifanlegar breytingar.

Eftir því sem mannfólkinu fjölgar skiptir framlag hvers og eins ennþá meira máli, því með hverjum nýjum einstaklingi eykst álagið á Jörðina okkar. Hið sékennilega er þó að það er oft eins og við þurfum á katastrófu að halda, til að gera breytingar. Einhverju sem beinlínis þvingar okkur til að taka öðruvísi á málunum.

Þá rísa menn gjarnar upp á afturfæturna og spyrja af hverju "Bakkabræðurnir" þrír, þeir einhver, sérhver og hver sem er, hafi ekki látið þá vita af þessum vanda. Við erum nefnilega sérfræðingar í að kunna lausn á málum eftir á, sem meðal annars má sjá að öllum þeim tíma sem varið hefur verið hér á landi í að leysa bankahrunið eða önnur hrun eða vandamál - eftir á.

Spurt er fávísra spurninga eins og: "Hefði ekki verið hægt að koma í veg fyrir þetta?"

Örugglega, ef einhver hefði sýnt fyrirhyggju, en hana skortir oft. Ef þú vilt sýna fyrirhyggju geturðu spurt þig að því á hvaða hátt þú getir gert þitt daglega líf grænna nú í GRÆNUM APRÍL og svo haldið áfram að gera hlutina í samræmi við það - því þitt framlag telur.