Guðrún Bergmann - haus
13. febrúar 2016

Bara að standa upp aftur

Yngsta sonardóttir mín er rúmlega fjórtán mánaða gömul og ég nýt þess að fylgjast með henni vaxa og dafna, ekki hvað síst eftir að hún fór að ganga og getur skoðað heiminn frá því sjónarhorni. En þar sem hún er ný í göngulistinni, tekst henni misvel til. Hún fattar til dæmis ekki alltaf að stór bolti rúllar áfram þegar hún ætlar að taka hann upp og dettur á magann. Og stundum þegar mikið er að gerast hjá henni og spenningurinn mikill, missir hún jafnvægið og dettur á rassinn. Hvort sem hún dettur fram- eða afturfyrir sig, stendur hún alltaf kappsfull upp aftur og heldur áfram að bæta sig í göngulistinni.

Ungum börnum er svo eðlilegt að gera mistök meðan þau eru að læra, en jafnframt líka að halda áfram og gera frekari tilraunir til að bæta sig eins og ekkert hafi í skorist. Hins vegar er eins og við töpum þessum hæfileika eftir því sem við verðum eldri. Við viljum ekki láta hlægja að okkur. Við viljum ekki gera aðra tilraun ef okkur mistekst í fyrsta sinn. Við skömmumst okkar fyrir að “falla” og í stað þess að standa upp aftur “liggjum” við þar sem við lentum, óánægð og ósátt, en samt ekki tilbúin til að gera tilraun til að “standa upp” á nýjan leik. Með slíkum viðbrögðum missum við smátt og smátt trúnna á okkur sjálf.

Til að endurvekja þá trú er gott að hafa í huga að: “Það skiptir ekki máli hversu oft þú dettur, heldur hversu fljótur þú ert að standa upp aftur.” Þessi hvatning er alveg í samræmi við viðbrögð lítilla barna. Þau standa bara upp aftur og halda áfram. Við eldri getum tamið okkur að gera slíkt hið sama á öllum sviðum lífsins.