Guðrún Bergmann - haus
6. nóvember 2016

Glútenlaust brauð

hringbrau.jpgÍ tengslum við nýútkomna bók mína HREINT Í MATINN var ég í viðtali hjá Sigmundi Erni í þættinum HEIMILIÐ á Hringbraut síðastliðinn föstudag, ásamt samstarfskonu minni Evu Þórdísi Ebenezersdóttur. Þar kynnti Eva Þórdís til leiks glútenlaust brauð sem hún hafði sérstaklega bakað fyrir þáttinn.

Þar sem ég fjalla um glútenóþol í bókinni minni, sem í eru líka ótal uppskriftir að réttum í öll mál sem eru án glútens, sykurs og mjólkur, vil ég endilega deila brauðuppskriftinni hér.

Uppskriftin er frekar stór, enda gert ráð fyrir að deigið sé útbúið og geymt í ísskáp og síðan tekinn hluti af því daglega til að baka nýtt og ferkst glútenlaust brauð. Í fyrstu tilraun er því sniðugt að baka bara úr hálfri uppskrift. Út í grunndeigið er hægt að bæta kryddi og fræjum til að breyta bragðinu eða minnka mjölmagnið og setja í staðinn glútenlaust haframjöl frá Bob’s Red Mill.

Prófaðu að setja ¼ bolla af fræjum að eigin vali eða þyrrkaðar kyddjurtir eins og 1 teskeið af timían eða ½ af rósmarín til að búa til gott súpubrauð. Einnig má bæta út í brauðið rúsínum eða döðlum og muldum valhnetum til að fá gott og örlítið sætt brauð með helgarkaffinu. Til að toppa sæta brauðið má dusta örlitlum kanel yfir það fyrir baksturinn – en hér kemur svo uppskriftin

  • 6 ½ bolli (990 g) blanda til helminga af All Purpose Baking Flour og Homemade Wonderful Bread Mix frá Bob’s Red Mill (fæst í Kosti)
  • 1 msk (10 gr) þurrger
  • 1-1 ½ msk himalajasalt eða gróft sjávarsalt
  • 2 msk (30 gr) sykur (má sleppa eða nota agave síróp í staðinn)
  • 3 ¾ bollar (850 g) volgt vatn
  • maísmjöl eða glútenlaust mjöl og bökunarpappír

Svona er deigið gert og brauðið bakað

  1. Blandaðu saman mjöli, geri, salti og sætuefni (ef notað er) í hrærivélarskál.
  2. Bættu volgu vatni við – vatn sem er 38°C heitt gerir það að verkum að deigið lyftir sér á um það bil 2 tímum.
  3. Blandaðu öllu saman með sleif eða sleikju eða hrærið með grófum þeytara, en það tekur um eina mínútu. Ekki þarf að hnoða deigið. Setjið blönduna í skál með loki, þó ekki loftþéttu loki, því það þarf að opna það aðeins. Það má líka setja plastfilmu yfir skálina.
  4. Láttu blönduna lyfta sér við stofuhita í um það bil 2 tíma og setjið svo deigið í ísskáp, til að geta notað næstu 10 dagana. Hægt er að nota hluta af deiginu hvenær sem er eftir að það hefur lyft sér. Þegar deigið hefur verið í ísskáp, t.d. yfir nótt, er það ekki eins límkennt og auðveldara að vinna með það heldur en þegar það er stofuheitt. Hvora leiðin sem þú velur, máttu ekki slá deigið/brauðið líkt og gert er með hveitibakstur – því þess þarf ekki þegar bakað er glútenlaust brauð.
  5. Á bökunardegi: Taktu svona 500 gr af deiginu (kúlu á stærð við greipaldin) og settu það á bökunarpappír, stráðum maísmjöli eða öðru glútenlausu mjöli. Mótaðu rúnnaða kúlu úr deiginu og notaðu blauta fingur til að slétta yfirborð hennar. Leggðu plastfilmu (ekki þétt) yfir deigkúluna og leyfðu henni að standa á borðinu í 60 mínútur. Deigið mun ekki líta út eins og það hafi lyft sér mikið á þessum 60 mínútum – en það er eðlilegt.
  6. Hitaðu á meðan ofninn í 230°C með bökunarsteini (pitsusteini ef þú átt hann) eða bökunarplötu í miðju hnas. Ef þú notar stein eða plötu, settu þá tóma ofnskúffu undir til að geta sett vatn í hana.
  7. Dustaðu efri hluta brauðdeigsins með ríkulegu magni af mjöli. Ristu nokkra ca 1 cm djúpa skurði í deigið með beittum brauðhnífi.
  8. Settu brauðið á bökunarpappírnum í ofninn. Helltu fljótt, en varlega, 1 bolla af heiti vatni úr krananum í ofnskúffuna og lokaðu ofninum, til að halda gufunni inni.
  9. Ef þú setur brauðið inn á bökunarpappír, tekurðu hann undan brauðinu eftir 20 mínútur, en bakar brauðið í 45 mínútur samtals. Leyfðu brauðinu að kólna vel (um 2 tíma) á bökunargrind. (Má líka borða volgt)
  10. Geymdu það sem eftir er af deiginu áfram í ísskápnum í lokuðu íláti til að nýta næstu 10 dagana.

Gangi þér vel með glútenlausan bakstur!