Guðrún Bergmann - haus
19. janúar 2017

D-vítamín, sólarljós vetrartímans

Það grúfir myrkur yfir landinu og enn er langt fram að jafndægri á vori, þegar dagur og nótt verða jafnlöng og dagana fer að lengja í framhaldi af því. Á meðan þurfum við, sem búum á norðlægum slóðum að byrgja okkur upp af D-vítamíni eftir öðrum leiðum til að viðhalda góðri heilsu, því á þessum dimmu dögum vinnum við það ekki úr sólarljósinu. Við þurfum nefnilega á þessu mikilvæga bætiefni að halda, bæði til að viðhalda sterkum beinum og tönnum, svo og til að styrkja ónæmiskerfi okkar. Þegar sólar nýtur ekki við er því gott að geta gripið til D-vítamíndropa eða D-3 vítamínhylkja í tveimur styrkleikum frá NOW.

KALKUPPTAKA, ÓNÆMIS- OG ÆÐIKERFIÐ
Ég vel reyndar að nota D-3 & K-2 blönduna frá NOW, þar sem tveimur öflugum bætiefnum er blandað saman, en eiginleikar þeirra hafa verið mikið rannsakaðir. D-3 stuðlar að flutningi kalks um líkamann og upptöku þess. Nýlegar rannsóknir gefa til kynna að D-3 spili einnig stóra rullu í insúlínvirkni og meltingu glúkósa og góðri virkni ónæmiskerfisins. K-vítamínið er nauðsynlegt til myndunar á heilbrigðum beinmerg og þegar kemur að æðakerfinu er hlutverk þess að styðja við góða nýtingu á kalki í því. K-2 er einmitt mjög virkt og líffræðilega nýtanlegt form af K-vítamíni.

UMBREYTING D-VÍTAMÍNS
Þegar sólin skín á húðina, framleiðir hún D-vítamín og sendir það til lifrarinnar. Ef þú tekur inn bætiefni eða borðar fæðu sem inniheldur D-vítamín (aðallega túnfiskur, makríll, lax og þorskalifur – mjólk inniheldur ekki D-vítamín, því er bætt í hana) senda þarmarnir það líka til lifrarinnar. Þar breytir lifrin því í efni sem kallast 25(OH)D. Ef þú ferð til læknis og hann mælir D-vítamínbúskap þinn, er hann að mæla það magn af 25(OH)D sem er í blóði þínu. Það efni er svo sent út um allan líkama, þar sem mismunandi vefir, þar á meðal nýrun, breyta því í virkt D-vítamín. Þá er það loks tilbúið til að sinna skyldum sínum í líkamanum, en þær eru meðal annars að stilla af það magn af kalki sem er í blóði, beinum og þörmum og til að hjálpa frumum um allan líkamann að koma skilvirkum boðum sín á milli.

BEINKRÖM OG D-VÍTAMÍN
Tengslin á milli D-vítamíns og beinheilsu hafa lengi verið þekkt eða frá því læknavísindin uppgötvuðu að sólarljós, sem hjálpar líkamanum að framleiða D-vítamín, og þorskalýsi sem inniheldur D-vítamín kæmu í veg fyrir breinkröm hjá börnum og beinmeyru hjá fullorðnum.

Kalk og forfór eru nauðsynleg til þróunar og uppbyggingar á sterkum beinum, en við þurfum á D-vítamíni að halda til upptöku á þessum steinefnum. Jafnvel þótt neytt sé fæðu sem inniheldur mikið af kalki og fosfór, getur líkaminn ekki tekið þau steinefni upp nema hafa nægilegt D-vítamín.

D-vítamín er eina vítamínið sem líkaminn getur framleitt sjálfur í gegnum sólarljós á húð, þ.e. án sólarvarnar. Það hefur áhrif á ýmsa aðra þætti líkamsstarfseminnar en bara beinin, eins og:

  • Styrk ónæmiskerfisins og hversu vel okkur gengur að verjast sýkingum
  • Virkni vöðvanna
  • Starfsemi hjarta- og æðakerfis, góða hjartaheilsu og blóðflæði
  • Öndunarkerfið - upp á heilbrigð lungu og lungnapípur
  • Þróun heilans
  • Sem vörn gegn krabbameinum


SKORTUR Á D-VÍTAMÍNI
Fái líkaminn ekki nægilegt magn af D-vítamíni, kallast það D-vítamínskortur. Mikill skortur á D-vítamíni getur eins og fyrr segir leitt af sér beinkröm hjá börnum og beinmeyru hjá fullorðnum. D-vítamínskortur hefur einnig verið tengdur ýmsum öðrum sjúkdómum eins og krabbameini, asthma, sykursýki týpu II, háþrýstingi, þunglyndi, Alzheimer’s og sjálfsónæmissjúkdómum eins og MS, Crohn’s sjúkdómnum (meltingarfærin) og sykursýki týpu I.

Heimildir: Webmd.com og Vitamin D Council