Karen Axelsdóttir - haus
Þú ert hér: Karen Axels > Af stað!
29. apríl 2010

Af stað!

Ertu alltaf aðeins að fikta við eitthvað en kemur þér aldrei almennilega af stað? Skráðu þig í eitthvað  sem hvetur þig áfram hvort sem það er að ganga uppá Hvannadalshnjúk, fara í nokkurra daga hjólaferð, taka þátt í hálf maraþoni, þríþraut eða öðru. Það verður að vera eitthvað sem þú telur þig ekki geta gert nema helga þig takmarkinu m.ö.o eitthvað sem  þú ert pínu hræddur við. Ekki hafa of langan tímaramma. Reyndu að halda þér við eitthvað sem er t.d í sumar eða haust svo þú komir þér af stað og haldir dampi. 

swim2Til dæmis  þegar ég skráði mig í mína fyrstu þríþraut þá var alveg ljóst að ég gat ekki synt nema brot af vegalengdinni hvað þá í öldusjó  (sjá mynd frá því). Ég vissi líka að það myndi ekki reddast að hlaupa 10 km eftir að hafa bæði synt og svo hjólað heila 40 km. 

Ég hafði fjóran og hálfan mánuð til stefnu og setningin ,,ég hef ekki tíma" var þurrkuð út úr orðaforðanum.  Ef hefði ekki haft þetta takmark og þennan tímaramma þá hefði ég aldrei verið svona dugleg að vakna á æfingar  og nýta allar dauðar stundir til að láta dæmið ganga upp. Ég var hreinlega svo skíthrædd við þetta að ég þurfti enga hvatningu til að gera eitthvað í málunum.  Árangurinn var svo bónus og algjört aukatriði miðað við ánægjuna að gera eitthvað örðuvísi og breyta um lífsstíl.

Fyrir flest heilbrigt fólk er 5 km hlaup jafnvel 10 km hlaup oftast ekki nóg hvatning til að þú rífir þig fram úr rúminu því þú veist þú getur alltaf labbað í versta falli og þetta reddast einhvern veginn.Ýkt dæmi um áskorun er að skrá sig í Ironman eða Ultaramaraþon en fyrir venjulegt fólk væri það það síðasta sem ég myndi mæla með. Við erum að tala um eitthvað þarna á milli. Fyrir þá sem eru komnir af stað þá er lykillinn að vera alltaf skráð/ur í eitthvað og prófa nýja hluti.