Bentu á grjóthrunshættu viku áður en banaslys varð í gljúfrinu

Kárahnjúkavirkjun | Viku áður en banaslys varð í Kárahnjúkavirkjun, í gljúfrinu undir Fremri-Kárahnjúk, höfðu eftirlitsaðilar Landsvirkjunar sent Impregilo og undirverktökum þeirra skriflega athugasemd um þá hættu sem stafaði af grjóthruni úr fjallinu.

Þá segist öryggistrúnaðarmaður Arnarfells, Árni Kristjánsson, margoft hafa kvartað við öryggisfulltrúa bæði Landsvirkjunar og Impregilo um hrunhættu í gljúfrinu áður en banaslysið varð. Það var einmitt starfsmaður hjá Arnarfelli, undirverktaka Impregilo, sem lét lífið við það að bjarg hrundi á hann.

VIJV ber ábyrgð á öryggi

Páll Ólafsson, formaður öryggisráðs Landsvirkjunar, VIJV við Kárahnjúkavirkjun, sagði í samtali við Morgunblaðið að öryggisráðið bæri ábyrgð á að öryggisráðstöfunum sem krafist er í íslenskum lögum og reglum varðandi hollustuhætti, aðbúnað og öryggi starfsmanna sé framfylgt af verktökunum. VIJV er skammstöfun úr þjóðarheitum þeirra sjö verkfræðifyrirtækja sem standa að framkvæmdaeftirliti í Kárahnjúkavirkjun.

"Hvort sem það er Impregilo, Arnarfell eða Suðurverk sem er að koma hér til starfa," sagði Páll.

"Þetta er rétt hjá manninum (öryggisfulltrúa Arnarfells, innsk.blm.) að það var öllum ljóst að þarna var hætta á ferðum, sérstaklega eftir þennan langa hlákukafla. Þá fór að bera á grjóthruni og það má segja að það hefði átt að vera búið að grípa til öryggisráðstafanakannski heldur fyrr en gert var. En allt er þetta vinna sem tekur sinn tíma, bæði áhættugreiningin, að koma með varnaraðgerðir, útvega búnað og svo framvegis. Þær aðgerðir sem nú eru í gangi miðast að því að tryggja öryggi manna og þetta eru miklar öryggisráðstafanir. Það eru settar öryggisgirðingar á gilbarmana, net til að tryggja hrun úr bökkunum og byggðar girðingar og varnargarðar uppi í hlíðinni fyrir ofan, sérstaklega á hægri bakkanum. Allt tekur þetta tíma og það má kannski segja að fljótar hefði þurft að bregðast við um leið og fór að bera á hruni."

Byrjað á varnaraðgerðum

Að sögn Páls er VIJV nú að yfirfara tillögur Impregilo að áhættumati og telji öryggisráðið þær fullnægjandi verður ráðist í framkvæmd varnaraðgerða. Fyrr en þeim er lokið verður vinna ekki leyfð í gljúfrinu að tilskipan Vinnueftirlits ríkisins.

Vinna við öryggisaðgerðirnar er raunar þegar hafin og var einmitt verið að vinna nýjan sneiðing til að komast að uppsetningu girðinga og neta þegar 50 tonna beltagrafan rann niður á gljúfurbarminn í vikunni. Þess má og geta að tvær öryggisgirðingar vegna grjóthruns eru ofarlega í Fremri-Kárahnjúk og hafa verið þar frá því í fyrrasumar.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert