Útvarpsstöðin Matthildur hefur hætt útsendingum

Útvarpsstöðin Matthildur er hætt útsendingum. Hans Konrad Kristjánsson, eigandi stöðvarinnar, ákvað að hætta útsendingum síðastliðinn mánudag í kjölfar þess að STEF, Samband tónskálda og eigenda flutningsréttar, hótaði að setja lögbann á stöðina vegna vangoldinna stefgjalda.

Hans Konrad sagði í samtali við Fréttavef Morgunblaðsins að honum hafi verið nauðugur einn kostur; hann hefði ætlað að greiða sambandinu en það hefði einnig viljað fá greidda skuld fyrri eigenda. Það hefði hann ekki ráðið við. "STEF fór einfaldlega offari í þessu máli og sýndi mér enga miskun. Þeir ákveða gjaldskrána fyrir flutning tónlistar og krefjast þess fyrirvaralaust þegar þeim hentar að greiðslur séu inntar af hendi eða tryggingar fyrir greiðslum." Hans Konrad sagðist ætla að endurskipuleggja rekstur stöðvarinnar og sagði að hún gæti farið af stað á ný áður en langt um liði. Útvarpsstöðin Matthildur, sem útvarpað var á FM 88,5, var opnuð árið 1997 á vegum Íslenska fjölmiðlafélagsins. Hans Konrad keypti stöðina í fyrra af Atlantic Radio í Færeyjum.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert