Engan sakaði í öflugri sprengingu

mbl.is/Júlíus

Efnaframleiðslu hefur verið hætt í Áburðarverksmiðjunni í Gufunesi í kjölfar öflugrar sprengingar sem varð í verksmiðjunni laust fyrir klukkan sjö í gærmorgun. Engan sakaði en fimm starfsmenn voru á svæðinu þegar sprengingin varð. Sprengingin var svo öflug að hús í Grafarvogi nötruðu og fundu margir íbúar loftþrýstibylgju.

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir borgarstjóri átti fund með Haraldi Haraldssyni stjórnarformanni Áburðarverksmiðjunnar í gær. Þar tilkynnti hún að borgin væri reiðubúin að taka upp viðræður um hvernig megi flýta brottflutningi verksmiðjunnar, ljúka skipulagi svæðisins og hefja uppbyggingu atvinnu- og íbúðabyggðar á svæðinu, sem gert er ráð fyrir í tillögum að aðalskipulagi fyrir árið 2024. Hún segist vona að verksmiðjan fari árið 2002 eða 2003.

Allt tiltækt lið slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins var kallað á vettvang og var stóru svæði umhverfis verksmiðjuna lokað vegna öryggisráðstafana. Lítilsháttar eldur kviknaði við sprenginguna, en slökkviliðsmenn náðu fljótt tökum á eldinum. Starfsmenn Áburðarverksmiðjunar hófu slökkvistörf áður en slökkvilið kom á vettvang.

Sprengingin varð í rafmagnstöflusal í enda húss þar sem fer fram framleiðsla á vetni og ammóníaki. Enginn var í húsinu enda vinnslan sjálfvirk og fjarstýrð. Húsið er mikið skemmt, gafl þess hrundi sem og fleiri veggir. Haraldur telur að um 200 milljónir myndi kosta að bæta tjónið sem varð í sprengingunni.

Í fyrstu var talin mikil hætta á loftmengun vegna sprengingarinnar, en vindátt var hagstæð og stóð vindur á haf út. Jón Viðar Matthíasson, aðstoðarslökkviliðsstjóri, segir að ekki hafi verið talin ástæða til að rýma hús í nágrenninu. "Þarna var staðbundin hætta, það var engin lykt af neinum efnum, hvorki ammoníaki né öðru og þá var ákveðið að rýma ekki," segir hann. Enn er ekki ljóst hvað olli sprengingunni. Helst er talið að um skammhlaup í rafmagnsspenni hafi verið að ræða. Jón Viðar segir að þessi sprenging hafi komið öllum í opna skjöldu, menn hafi ekki átt von á því að þarna gæti orðið sprenging. Aðspurður segist hann telja ólíklegt að um skemmdarverk hafi verið að ræða og segir að slíkt hafi ekki komið til tals. Rannsóknarlögreglan fer með rannsókn málsins.

50 ára búnaður

Búnaðurinn þar sem sprengingin varð er frá því verksmiðjan var stofnuð fyrir tæpum 50 árum, árið 1952. Haraldur segir að búnaður verksmiðjunar hafi verið yfirfarinn og skoðaður reglulega og segir Jón Viðar sprenginguna ekki tengjast því hversu gamall búnaðurinn var. "Hann var alla vega það vel á sig kominn að allir ventlar sem átti að loka lokuðust og þeim ventlum sem starfsmenn áttu að loka, var lokað. Það má segja að kerfi verksmiðjunnar og viðbragðsáætlun starfsmanna hafi staðiðst prófið, sem er aðdáunarvert því oft fara menn í kerfi þegar þeir lenda í svona," segir Jón Viðar.

Öll starfsemi verksmiðjunnar var lömuð í gær, enda rafmagnslaust. Efnaframleiðslu í verksmiðjunni hefur verið hætt og verður verksmiðjan rifin á næstu misserum og stendur til að þétt blönduð byggð atvinnu- og íbúðarhúsnæðis rísi á svæðinu. Í lok ágúst var tilkynnt að Áburðarverksmiðjan myndi hætta frumvinnslu hráefna til áburðarframleiðslu og leggja þess í stað áherslu á fullvinnslu áburðar. "Þá höfðum við alltaf þann möguleika að fara af stað aftur með efnaframleiðslu, en með þessu erum við að leggja línurnar með það að ekki verði byggt upp aftur," segir Haraldur. Ekki var búið að taka ákvörðun um hvenær framleiðslunni yrði hætt, en það stóð til á næstu vikum.

Jón Viðar segir að slökkviliðið verði með vakt á svæðinu í dag, ef menn ætli að hreyfa eitthvað við rústunum. "Ef menn hreyfa einhverjar lagnir eða eitthvað, getum við sprautað vatni á ammoníak, ef það kemur, þannig að það fari ekki yfir byggðina." Tveir tankar með vetni og köfnunarefni standa í um 100 metra fjarlægð frá húsinu þar sem sprengingin varð. Haraldur segir að framleiðslan hafi enn verið í fullum gangi þegar sprengingin varð og að tankarnir séu yfirleitt fullir að tveimur þriðju eða til helmings. Svo hafi einnig verið núna.

Hallgrímur N. Sigurðsson, formaður Íbúasamtaka Grafarvogs, segir að fólki hafi verið mjög brugðið við sprengingua í gærmorgun.

"Íbúar í Grafarvogi hafa mótmælt þessari verksmiðju í mörg ár á borgarafundum, með blaðagreinum og öðru. Þessi verksmiðja er okkur þyrnir í augum, þetta er efnaverksmiðja, áburður er sprengiefni og hefur fólk verið hrætt við þetta lengi. Fyrir utan sjónmengun á þessu fallega svæði fylgja þessu miklir þungaflutningar, flutningar á trukkum og áburðarflutningar hér um hverfin. Þessi verksmiðja var reist langt utan við borgina á sínum tíma, af því að menn gerðu sér grein fyrir því að svona framleiðslu fylgir ákveðin hætta. Nú eru breyttir tímar, nú er komin 18 þúsund manna byggð þarna innan seilingar," segir Hallgrímur.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert