Engar vísbendingar um að skotið hafi verið á öryggisverði Blackwater

Rannsókn Bandaríkjahers á aðdraganda þess að öryggisverðir bandaríska einkafyrirtækisins Blackwater skutu 17 Íraka til bana á Nusoor-torginu í Bagdad þann 16. september hefur ekki leitt í ljós neinar vísbendingar um að skotið hafi verið á bílalestina sem öryggisverðirnir fylgdu áður en þeir hófu skothríð. Þetta kemur fram á fréttavef CNN.

Samkvæmt heimildum bandaríska blaðsins The Washington Post fundust einungis skothylki úr byssum öryggisvarðanna á staðnum og benda vísbendingar til þess að m.a. hafi verið skotið á bíla sem reyndu að yfirgefa torgið.

Forsvarsmenn Blackwater hafa haldið því fram að öryggisverðirnir hafi skotið á vegfarendur í sjálfsvörn eftir að á þá var ráðist en atvikið átti sér stað eftir að sprengja sprakk í vegkanti skammt frá bílalestinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert