Ætluðu að drepa teiknarann í ræktinni

Ádeiluteikning Westergaard af Múhameð spámanni er birt í fjölmörgum dönskum …
Ádeiluteikning Westergaard af Múhameð spámanni er birt í fjölmörgum dönskum blöðum í dag.

Mennirnir þrír sem lögðu á ráðin um að drepa danska teiknarann Kurt Westergaard hittu hann reglulega í líkamsræktarstöð í Árósum og áformuðu samkvæmt heimildum danska blaðsins Jyllands Posten að drepa hann þar. Westergaard og eiginkona hans hafa notið strangar öryggisgæslu lögreglu undanfarna þrjá mánuði og hafa þau m.a. þurft að flytja margoft á milli heimila. Þetta kemur fram á fréttavef Jyllands-Posten.Westergaard mun hafa stundað líkamsrækt í umræddri líkamsræktarstöð þrisvar til fjórum sinnum í viku en danska rannsóknarlögreglan PET hefur ekki vilja greina frá því hvernig mennirnir hugðust drepa teiknarann eða hvernig lögregla komst að áformum þeirra. Fór lögregla fram á að tveimur mannanna yrði vísað úr landi fremur en að þeir yrðu ákærðir vegna málsins þar sem forsvarsmenn lögreglunnar vilja ekki opinbera gögn lögreglunnar í málinu.

Wester­gaard staðfestir sjálfur að hann hafi sótt umrædda líkamsræktarstöð í tólf ár  og að stór hópur múslíma sæki hana. Hann segist þó aldrei hafa orðið var við neitt ógnandi í samskiptum sínum við þá. Þá segist hann ekki hafa fengið staðfestingu um það frá lögreglu að tilræðið hafi tengst ferðum hans þangað.

 „Ég hef kinkað kolli vinsamlega til þeirra múslíma sem ég hef æft með og þeir hafa kinkað jafn vinsamlega kolli til baka. Hafi einhver viljað mér illt hefði hann auðveldlega getað hrint mér í sturtunni eða gert jafnvel eitthvað enn verra. Ég hef hins vegar aldrei nokkurn tíman orðið var við nokkuð slíkt,” segir hann.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert