18,5% þýskra feðra taka feðraorlof

Börn á fæðingardeild
Börn á fæðingardeild AP

Feðraorlofið nýtur mikilla vinsælda meðal þýskra karlmanna. Að sögn Ursulu von der Leyen, sem fer með málefni fjölskyldna í ríkisstjórn Þýskalands, hafa 18,5% nýbakaðra feðra óskað eftir því að taka fæðingarorlof frá því að breytingar voru gerðar á lögum um foreldraorlof í Þýskalandi fyrir átján mánuðum.

Samkvæmt lögunum fá feður tvo þriðju hluta launa greidd í feðraorlofi og segir von der Leyen  að bylting hafi átt sér stað inni á þýskum heimilum.

Lagabreytingin er liður í átaki Angelu Merkel, kanslara Þýskalands, í að auka fæðingartíðni í Þýskalandi en hún er með því lægsta sem þekkist í Evrópu. Segist Merkel vonast til þess að þetta auðveldi foreldrum að samtvinna fjölskyldu og starfsframa. Þetta virðist ætla að skila árangri því fæðingartíðni jókst á síðasta ári og eignast þýskar konur nú að meðaltali 1,4 börn. Hefur fæðingartíðnin ekki verið jafn há í Þýskalandi í 17 ár.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert