Allt í plati í Peking

Litla stúlkan sem var í aðalhlutverki við setningarathöfn ólympíuleikanna var aðeins að herma eftir og var hún valin vegna fríðleika. Sú sem söng var hins vegar ekki talin vera nógu falleg og söng því baksviðs. Þá voru flugeldarnir heldur ekki ekta og voru þeir búnir til með aðstoð tölvu.

Myndir af Lin litlu í rauða kjólnum hafa birst í fjölmiðlum og á netinu víða um heim og blaðið China Daily lofaði hana sem rísandi stjörnu í morgun.

Chen Qigang, tónlistarstjórnandi sýningarinnar, segir hins vegar að röddin sem fólk hafi heyrt tilheyri hinni sjö ára gömlu Yang Peiyi sem hefur feitlagið andlit og skakkar tennur.

„Ástæða þess að Yang litla var ekki valin til að koma fram er sú að við vildum sýna ákveðna ímynd, við vorum að hugsa um hvað væri best fyrir þjóðina,“ segir Chen í viðtali sem birtist í skamma stund á vefnum Sina.com í morgun áður en það var þurrkað út af netinu.

Lin Miaoke var sýnd syngja hinn þjóðernislega söng Óður til ættjarðarinnar í sömu mund og fáni Kína var borinn inn á leikvanginn og var þetta hápunktur hinnar þriggja stunda löngu opnunarathafnar.

Flugeldarnir voru tölvugerðir

Þrír milljarðar sjónvarpsáhorfenda fylgdust agndofa með þegar risastór fótspor gerð úr flugeldum birtust á næturhimninum yfir Tiananmen torgi og héldu svo að Fuglshreiðrinu, leikvanginum þar sem setningarhöfnin fór fram. Fótsporin voru þó ekki mynduð með flugeldum heldur voru þau tölvugerð.

Áhorfendur á leikvanginum sjálfum sáu sömu mynd á risastórum skjám.

Fólk hélt að það væri að horfa á mynd af flugeldasýningu, tekna úr þyrlu.

Veruleikinn er hins vegar sá að þetta var allt saman tölvugrafík og það tók næstum því ár að búa herlegheitin til. Myndin var meira að segja hrist aðeins svo sömu áhrif næðust og ef verið væri að kvikmynda úr þyrlu.

Það er Peking Times sem skýrir frá þessu. Maðurinn sem er ábyrgur fyrir tölvuvinnslunni segist vera hæstánægður með árangurinn. Fólk hafi haldið að þetta væru flugeldar og það hafi verið markmiðið.

Hönnuðirnir bættu meira að segja við smá móðu til að líkja eftir menguninni í Peking.

Sjónvarpsstöðvar erlendis áttu ekki annarra kosta völ en að sýna myndskeiðið þar sem það kom allt í einni útsendingu frá Ólympíu sjónvarpi Peking, stofnuninni sem sér um að mynda leikana.

Athöfnin hefur verið harðlega gagnrýnd af arkitektinum Ai Weiwei sem hannaði Fuglabúrið ásamt svissnesku arkitektastofunni Herzog and de Meuron.

Á heimasíðu sinni segir Ai að athöfnin hafi verið endurnýtt rusl tilbúinnar klassískrar hefðar og fleira í þeim dúr. Einnig gagnrýnir hann kommúnistaflokkinn ákaft.

Það þykir mjög óvenjulegt að ekki skuli vera búið að loka bloggsíðu hans.

Einn af skipuleggjendum hátíðarinnar hefur sagt að flugeldarnir hafi verið ekta en ekki hafi þótt öruggt að kvikmynda þá og því hafi verið gripið til þess ráðs að búa þá með tölvu í staðinn.

Flugeldar yfir Peking á föstudag.
Flugeldar yfir Peking á föstudag. AP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert