Hóta hryðjuverkum í Danmörku

Svona var umhorfs eftir sprengjutilræðið við danska sendiráðið í Islamabad …
Svona var umhorfs eftir sprengjutilræðið við danska sendiráðið í Islamabad í júní. Reuters

Í nýju myndbandi frá al-Qaeda hryðjuverkasamtökunum er Dönum m.a. hótað hefndaraðgerðum. Samtökin lýsa einnig ábyrgð á hendur sér á árás á danska sendiráðið í Islamabad í Pakistan í júní.

„Við höfum áður varað krossfaralöndin við því, og ítrekum þá viðvörun nú, að þeir sem móðga, hæða og spotta spámann okkar og Kóraninn í fjölmiðlum sínum og hersitja lönd okkar, stela eignum okkar og drepa bræður okkar, munu verða fórnarlömb hefndar okkar."

Þetta segir Mustafa Abu al-Yazid, sem einnig er nefndur Abu Saeed al-Masri, í myndskeiðinu. Raunar er hann sagður hafa fallið í átökum við pakistanska hermenn 12. ágúst sl. Ekki kemur hins vegar fram hve upptakan er gömul. 

Á myndbandinu kemur einnig fram ungur maður sem sagður er hafa staðið að sprengjuárásinni á sendiráð Dana í Islamabad. Sex létu lífið í árásinni sem sögð er vera hefnd fyrir birtingu skopmynda af Múhameð spámanni.

„Minn síðasti boðskapur til hinna kristnu í Danmörku er að þetta - með Guðs hjálp - er hvorki  fyrsta né síðasta hefndin. Osama bin Laden og heilagar sveitir hans munu ekki láta ykkur sleppa," segir ungi maðurinn. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert