13 ára grýtt fyrir nauðgun

Komið hefur í ljós að 23 ára kona sem var grýtt til bana um daginn í Sómalíu fyrir hjúskaparbrot var í raun 13 ára stelpa sem hafði verið nauðgað. Yfirvöld sögðu að hún hefði játað sjálfviljug brot sitt og beðið um tilskylda refsingu en í ljós hefur komið að stúlkan grátbað um miskunn áður en hún var grafin upp að hálsi og grýtt af yfir 50 karlmönnum.

Amnesty International hefur komist að því að stúlkan, Aisha Ibrahim Duhulow, var aðeins 13 ára og segir faðir hennar að henni hafi verið nauðgað af þremur mönnum. Þegar fjölskyldan reyndi að tilkynna um nauðgunina var stúlkan ásökuð um hórdóm og fangelsuð. Samkvæmt íslömskum lögum er ólöglegt að dæma 13 ára stúlku fyrir hjúskaparbrot.

Sómölsk yfirvöld segja að stúlkan, eða réttara sagt konan eins og haldið var fram, hafi komið til þeirra og viðurkennt brotið. Hún hafi margsinnis verið beðin um að endurskoða játningu sína en hún hafi lagt áherslu á að vera dæmd undir lögum Sharia og að hún vildi að tilskilin refsing yrði framkvæmd. 

Vitni segja að áður en stúlkan var dregin út á fótboltavöll, þar sem grýtingin fór fram, hafi hún grátið og beðið um miskunn og að lífi hennar yrði þyrmt. Hún var neydd ofan í holu, grafin upp að hálsi og svo grýtt fyrir framan 1.000 manns.

Samkvæmt Amnesty International voru hjúkrunarfræðingar sendir til stúlkunnar þegar grýtingin var vel á veg komin til að athuga hvort hún væri enn á lífi. Hjúkrunarfræðingarnir grófu stúlkuna úr jörðinni og athuguðu lífsmerki hennar. Þegar í ljós kom að hún var ekki látin var hún grafin aftur svo grýtingin gæti haldið áfram.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert