Íslenska hvalkjötið að losna úr tolli

mbl.is/Brynjar Gauti

Vonir standa til að innflutningsleyfi fáist loks frá japönskum stjórnvöldum fyrir 80 tonnum af hvalköti sem sent var út í sumar.

Kristján Loftsson, forstjóri Hvals hf. sendi í júní í sumar, 80 tonn af kjöti til Japans. Um er að ræða afurðir af langreyðum, sem veiddar voru árið 2006. Þá sendu Norðmenn 5 tonn af hrefnukjöti með sömu sendingu. 

Ekkert innflutningsleyfi fékkst frá japönskum stjórnvöldum og hefur kjötið legið í frystigeymslu.

Kyodo fréttastofan hefur eftir Einari K. Guðfinnssyni að Íslendingar séu áfjáðir í að leysa hnútinn. „Ég vona að málið leysist fljótt, þannig að koma megi á viðskiptum með hvalaafurðir við Japana.“

Embættismenn úr sjávarútvegsráðuneytinu hafa átt í viðræðum við japönsk yfirvöld og er lausn í sjónmáli eftir því sem segir í frétt japönsku Kyodo fréttastofunnar.

Þar segir ennfremur að viðskiptaráðuneyti Japans hafi fallist á innflutning hvalkjöts í september.

Íslendingar hafa ekki selt hvalkjöt til Japans frá því í byrjun tíunda áratugar síðustu aldar. Norðmenn hafa ekki selt hvalkjöt til Japans frá því árið 1986 þegar hvalveiðibann Alþjóðahvalveiðiráðsins var sett. Norðmenn hafa hins vegar selt hrefnukjöt til Íslands og Færeyja. 

Kyodo fréttastofan segir spurn eftir hvalkjöti fara vaxandi, einkum meðal yngra fólks, enda hvalkjöt ríkt af próteini og tiltölulega fitusnautt. Undir Það tekur Einar K. Guðfinnsson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra í samtali við Kyodo. Einar segir hvalkjötið vinsælt í sushi-rétti og þá verði það sífellt vinsælla á grillið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert