Óvænt viðbrögð við hernaði Ísraela

Frá mótmælasamkomu við ísraelska sendiráðið í Bangkok höfuðborg Taílands í …
Frá mótmælasamkomu við ísraelska sendiráðið í Bangkok höfuðborg Taílands í morgun. AP

Ísraelum barst í gær stuðningur úr óvæntri átt við hernaðaraðgerðir sínar á Gasasvæðinu er Hosni Mubarak Egyptalandsforseti lýsti því yfir að ekki mætti leyfa palestínsku Hamas-samtökunum að hafa betur í átökum sínum við Ísraelsher. Mubarak sagði þetta á fundi með sendinefnd utanríkisráðherra Evrópusambandsins. Þetta kemur fram á fréttavef Ha’aretz. 

Það vekur athygli ísraelskra fréttaskýrenda að Mubarak lét ummælin falla sama dag og fulltrúar Hamas-samtakanna komu til Kaíró til viðræðna um hugsanlegt vopnahlé. Liðsmenn Hamas hafa ekki mætt til slíkra viðræðna frá því hernaðaraðgerðir Ísraela hófust en að loknum fundi þeirra með samningamönnum Egypta lýstu þeir því yfir að þeir hefðu fengið í hendur hugmyndir að vopnahléssamkomulagi sem þeir myndu íhuga.

Grunnt hefur verið á því góða á milli Mubaraks og leiðtoga Hamas samtakanna sem ráðið hafa Gasasvæðinu frá árinu 2006 og hefur hann ítrekað lýst yfir stuðningi við Mahmoud Abbas, leiðtoga Palestínumanna og Fatah hreyfingu hans sem fer með völdin á Vesturbakkanum.


Mehmet Ali Sahin, dómsmálaráðherra Tyrklands, lýsti því hins vegar yfir á laugardag að Ísraelar væru sú þjóð sem gerði hvað mest til að ýta undir hryðjuverkastarfsemi. Sagði hann ómögulegt að vinna sigur í hinu alþjóðlega stríði gegn hryðjuverkum á meðal Ísraelar haldi áfram ögrunum sínu. 

Recep Tayyip Erdogan, forsætisráðherra Tyrklands, tók í sama streng á sunnudag og sakaði Ísraela að eiga upptökin að átökunum. „Hamas virti vopnahlé í sex mánuði en Ísraelar stóðu ekki við skuldbindingar sínar um að aflétta einangrun Gasa,” sagði hann. “„Fólkið á Gasa lifir í nokkurs konar fangelsi. Í raun er öll Palestína fengelsi.”  

Nader Dahabi, forsætisráðherra Jórdaníu, sagði einnig á sunnudag að til greina komi að Jórdanar endurskoði stjórnmálasamband sitt við Ísraela í ljósi hernaðaraðgerða þeirra á Gasasvæðinu undanfarna daga. 

Tyrkir hafa átt í hvað friðsamlegustu samskiptum múslímaþjóða við Ísraela og því þykja ummæli ráðamanna þar óvenjuharkaleg. Ummæli forsætisráðherra Jórdaníu þykja einnig mjög óvenjuleg enda hafa  Jórdanar lagt áherslu á að halda stjórnmálasambandi við Ísraela til að reyna að koma í veg fyrir að Palestínumenn einangrist enn frekar á alþjóðavettvangi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert