40 hæða háhýsi í ljósum logum

40 hæða nýbygging í Peking, höfuðborg Kína, stendur nú í ljósum logum eftir að eldur kviknaði þar í kvöld. Húsið var mannlaust eftir því sem næst verður komist en þar átti að opna nýtt hótel í næsta mánuði, auk þess sem þar átti að opna leikhús og kvikmyndahús, að sögn fréttavefjarins The Beijinger og fréttavefjar CNN. 

Byggingin virðist af myndum að dæma að hafa verið nánast gleypt af logum.

Kínverska ríkisfréttastofan Xinhua hefur greint frá því að meira en 1.000 manns hafi verið fluttir úr nágrenni byggingarinnar og að vegatálmum hafi verið komið upp á nálægri hraðbraut og neðanjarðarlestum beint frá svæðinu. ,,Aska fellur eins og snjór allt að hálfa mílu frá húsinu og reykurinn frá eldinum skyggði á fullt tunglið," sagði í frásögn Xinhua. Byggingin stendur í miðju viðskiptahverfi höfuðborgarinnar.

Sjónarvottar hafa greint frá því að þegar eldurinn tók sig upp hafi engu verið líkara en að efstu hæðir hússins hafi nánast sprungið. Ekki hefur verið greint frá upptökum eldsins.

Eldurinn hefur verið óviðráðanlegur.
Eldurinn hefur verið óviðráðanlegur.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert