Boðar hertar aðgerðir

Barack Obama, vill herða aðgerðir gegn loftslabreytingum að mannavöldum.
Barack Obama, vill herða aðgerðir gegn loftslabreytingum að mannavöldum. Larry Downing

Unnið er að því á vettvangi Sameinuðu þjóðanna að styrkja samhæfðar aðgerðir gegn loftslagsbreytingum af mannavöldum. Augu allra eru nú á samninganefnd Bandaríkjanna, sem nú er komin til Bonn í Þýskalandi þar sem fundað er um málin. Búist er við mikilli stefnubreytingu í átt til harðari aðgerða.

Barack Obama hefur heitið því að efla til muna aðgerðir gegn loftslagsbreytingum að mannavöldum en hann hefur litið svo á að umhverfismál, og þá sérstaklega loftslagsbreytingar, séu eitt stærsta mála stjórnmála samtímans.

Obama hefur sagt að hann ætli að taka að sér leiðtogahlutverk við að innleiða samhæfðar aðgerðir og vill að Bandaríkin lagi sig að öllum stöðlum er varða losun gróðurhúsalofttegunda. Til dæmis gagnrýndi hann forvera sinn, George W. Bush, harðlega fyrir sniðganga Kyoto-bókunina svonefndu en hún gerir ráð fyrir ákveðnum hámarkslosunarheimildum á hvert ríki. Bandaríkin hafa ekki tekið tillit til þeirrar bókunar hingað til, og hafa sagt að hún henti ekki hagsmunum Bandaríkjanna þar sem atvinnulífið þar í landi gæti ekki aðlagað sig að stöðlum hennar nema með of sársaukafullum hætti.

„Vinnan er að hefjast núna og við vonum að hún muni leiða til farsællar niðurstöðu,“ sagði yfirmaður aðgerða gegn loftslagsbreytingum hjá Sameinuðu þjóðunum, Yvo de Boer, að loknum fundi í Bonn í gær. „Ég vona að Bandaríkin muni setja fram sín markmið svo við fáum að sjá í hverju stefnubreyting nýrrar stjórnar gæti falist,“ sagði de Boer við AFP fréttastofuna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert