Stefnubreyting í loftslagsmálum

Um fimmtungur losunar gróðurhúsalofttegunda í Bandaríkjunum kemur frá bílaflotanum.
Um fimmtungur losunar gróðurhúsalofttegunda í Bandaríkjunum kemur frá bílaflotanum.

Sú ákvörðun umhverfisstofnunar Bandaríkjanna (EPA) fyrir helgi að skilgreina gróðurhúsalofttegundir sem ógn við heilsu manna er talið fyrsta skrefið í átt að frekari reglugerðum um bíla, orkuver og verksmiðjur sem losa slíkar lofttegundir í andrúmsloftið.

Nær ákvörðunin til koldíoxíðs og fimm annarra gróðurhúsalofttegunda.

Fjallað er um málið í Chicago Tribune en þar eru leiddar líkur að því að ákvörðunin kunni að ryðja braut nýrra kvaða á losun koldíoxíðs frá bílum. 

Verður þá meðal annars horft til Kaliforníu sem lengi hefur verið leiðandi í mörgum umhverfisflokkum vestanhafs.

Bandarískir þingmenn deila nú um lagasetningu sem myndi beinast gegn orkuverum, en þau losa helmingi meira af gróðurhúsalofttegundum í andrúmsloftið en bílaflotinn vestanhafs.


Frank O'Donnell, forseti umhverfissamtakanna Clean Air Watch, fagnar ákvörðuninni sem hann segir mikil tímamót í umhverfisvernd vestanhafs.

Átta þekktir bandarískir baráttumenn fyrir hægrigildum eru hins vegar ekki sáttir við ákvörðunina og lýstu því yfir í bréfi til EPA að stjórnin bæri ábyrgð á þeim neikvæðu efnahagslegu áhrifum sem stefnubreytingin kynni að hafa í för með sér í bandarísku efnahagslífi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert