Viðbúnaðarstig 5 vegna flensu

WHO hefur lýst yfir næst hæsta viðbúnaðarstigi vegna svínaflensu.
WHO hefur lýst yfir næst hæsta viðbúnaðarstigi vegna svínaflensu. Reuters

Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (WHO) hefur hækkað viðbúnaðarstig vegna svínaflensunnar í fimm. Viðbúnaðarstigin eru sex. Margaret Chan, forstjóri WHO, sagði að heimsfaraldur væri yfirvofandi í kjölfar útbreiðslu veikinnar. Haraldur Briem, sóttvarnarlæknir, segir hækkað stig WHO ekki hafa breytingu í för með sér á Íslandi.

„Við erum með öðruvísi stigskiptingu en WHO, það sem við skilgreinum sem hættustig nær til viðbúnaðarstigs 4 og 5 hjá WHO. Svo metum við hvað við keyrum það hart eftir aðstæðum. Við erum búin að virkja okkar áætlun svo þetta er ekki mikil breyting fyrir okkur,“ segir Haraldur. Hann segir að fundað verði í fyrramálið með almannavarnadeild ríkislögreglustjóra þar sem staðan verði metin. Svo verði samráð haft við heilbrigðisstofnun Evrópusambandsins.

Margaret Chan, forstjóri WHO, sagði að öll ríki ættu nú þegar að virkja viðbragðsáætlanir sínar við heimsfaraldri um leið og hún tilkynnti um hækkað viðbúnaðarstig vegna svínaflensunnar. Viðbúnaðarstigið var hækkað í kjölfar fundar sérfræðinga WHO sem ráðlögðu að hækka viðbúnaðarstigið.

Chan sagði einnig að sá undirbúningur sem gerður var vegna H5N1 fuglaflensuveirunnar komi nú til góða. 

Fimmta viðvörunarstig WHO er aðeins einu stigi frá því sem talið er vera heimsfaraldur eða sjötta stig. Skilgreining fimmta stigs er að sterkar vísbendignar séu um að heimsfaraldur sé yfirvofandi og að tími til að grípa til áformaðra aðgerða til mildunar sé skammur.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert