AGS: Evrópa forðist aðra deild

Dominique Strauss-Kahn í Rúmeníu í dag.
Dominique Strauss-Kahn í Rúmeníu í dag. Reuters

Dominique Strauss-Kahn, framkvæmdastjóri Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, segir að ríki Evrópu verði að grípa til efnahagsaðgerða til að koma í veg fyrir að þau dragist aftur úr Bandaríkjunum og Asíu. Strauss-Kahn líkir stöðunni við knattspyrnu og segir að Evrópa eigi í hættu að falla í aðra deild.

„Áhættan fyrir evrópsk hagkerfi er að vera í annarri deild en ekki í þeirri fyrstu, með Bandaríkjunum og Asíu,“ Strauss-Kahn þegar hann ávarpaði hagfræðinema í Búkarest, höfuðborg Rúmeníu.

„Það er mögulegt að ef Evrópumenn grípa ekki til tafarlausra aðgerða, þá  muni baráttan eftir um 10-20 ára standa á milli Bandaríkjanna og Asíu, og á meðan sæti Evrópa á eftir,“ sagði hann ennfremur.

Hann metur þá hættu raunverulega að Evrópa geti færst út á jaðarinn á næstu 20 árum.

Til að sporna við þessu verði Evrópusambandið að styrkja stofnanir sambandsins. Efla nýsköpun, auka samkeppni og stuðla að hagvexti.

ESB þurfi á tólum að halda til að taka áhrifum kreppunnar og vinna að lausn hennar.


mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert