Hægriöfgamaður myrtur í Suður-Afríku

Kunnur hægriöfgamaður var myrtur í Suður-Afríku í gær. Maðurinn, sem hét Eugene Terre'blanche og var 69 ára, var barinn til bana á búgarði sínum í norðvesturhluta landsins. Tveir hafa verið handteknir.

Terre'blanche barðist á níunda áratug síðustu aldar fyrir stofnun sérstaks ríkis hvítra í Suður-Afríku. Hann varð leiðtogi lítilla samtaka, Afrikaner Weerstandsbeweging, sem börðust hatrammlega gegn afnámi aðskilnaðarstefnunnar. Reyndu samtökin að beita aðferðum hryðjuverkamanna og hótuðu borgarastyrjöld í aðdraganda fyrstu frjálsu kosninganna í landinu. Terre'blanche var laust fyrir aldamótin dæmdur í 5 ára fangelsi fyrir morðtilraun og afplánaði þrjú ár af dómnum.

Talið er að Terre'blanche hafi lent í deilum við tvo starfsmenn á búgarðinum, sem töldu sig eiga inni laun. Mennirnir tveir hafa verið ákærðir fyrir morð. 

Eugene Terreblanche árið 1994.
Eugene Terreblanche árið 1994. Reuters
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert