Skelfilegar lýsingar flóttamanna

Lýsingar flóttamanna frá Kirgistan eru skelfilegar en fjöldi Úsbeka hefur flúið land eftir fjöldamorð í suðurhluta Kirgistan. Læknir, Mukaddas Majidova, talaði við fréttamenn fyrir hönd þriggja systra sem eru í umsjón læknisins. Systrunum var nauðgað hrottalega af hópi Kirgisa og eru þær ófærar um að tjá sig vegna áfalls sem þær urðu fyrir.

Stúlkurnar, sem eru á aldrinum 16-23 ára, var nauðgað ítrekað, klukkustundum saman, ef marka má áverka sem þær bera segir Majidova en hún annast stúlkurnar sem eru mállausar.

Majidova og fleiri læknar í Andijan héraði í Úsbekistan, sem er við landamæri Kirgistan, reyna að aðstoða þá fjölmörgu sem flúið hafa átökin.

Segja læknarnir að nánast allir flóttamennirnir hafi skelfilega sögu að segja.

„Við meðhöndluðum í dag 28 ára gamlan karlmann sem hafði verið pyntaður. Hann var særður á hálsi eftir hníf. Hann var með brunasár eftir sjóðandi vatn og var með skotsár. Við náum að fjarlægja kúluna," sagði Kozim Mahkamov, læknir í Andijan borg, við AFP fréttastofuna í dag.

Rano Juraboyeva er ein þeirra sem fréttamenn APF ræddu við í dag en hún náði að fela sig í kirkjugarði ásamt barni sínu aðfararnótt laugardags en hún varð vitni að nauðgunum og þegar heil fjölskylda var þurrkuð út af glæpamönnum. 

„Ég fór með barnið mitt út á götu en þar var fjöldi Kirgisa á hestum sem öskruðu Úsbekar komið út!", sagði  Juraboyeva við fréttamann AFP. Henni tókst að komast í flóttamannabúðir ásamt barni sínu.

Hún horfði á nágrannafjölskyldu sína, hjón og þrjá syni þeirra, dregna út á götu þar sem foreldrarnir voru afklæddir, móðurinni nauðgað fyrir framan börnin. Síðan skutu þeir börnin fyrir framan foreldrana og að lokum drápu þeir foreldrana.

Í raun blasir skelfingin alls staðar við að sögn fréttamanna AFP sem eru við landamæri Kirgistan. Börn á sjúkrahúsum sem hefur verið nauðgað hrottalega, karlmenn sem hafa verið pyntaðir og börn sem hafa horft upp á foreldra sína pyntaða og myrta.


Á annað hundrað hafa látist í fjöldamorðum í Kirgistan undanfarna …
Á annað hundrað hafa látist í fjöldamorðum í Kirgistan undanfarna daga en ástandið þar minnir um margt á Rúanda árið 1994 Reuters
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert