Sarrazin víkur úr bankaráði Bundesbank

Mótmælandi heldur á plakati með mynd af Thilo Sarrazin fyrir …
Mótmælandi heldur á plakati með mynd af Thilo Sarrazin fyrir framan seðlabanka Þýskalands. JOHANNES EISELE

Seðlabanki Þýskalands, Bundesbank, tilkynnti í kvöld að hinn umdeildi bankaráðsmaður Thilo Sarrazin hefði sagt af sér. Sarrazin var sakaður um rasisma í bók sinni sem útgefin var í síðasta mánuði.

„Bankaráð Bundesbank og meðlimur þess, Thilo Sarrazin, eru meðvituð um skuldbindingar sýnar til stofnunarinnar. Í ljósi almenningsumræðunnar (um bók Sarrazin) hafa málsaðilar ákveðið í sameiningu að slíta samstarfi sínu í lok mánaðarins," segir í tilkynningu sem birtist á heimasíðu seðlabankans í kvöld.

Þá bætti bankaráðið við að í kjölfar þessar hefði verið dregin til baka beiðni sem send var forseta Þýskalands um að reka Sarrazin, eftir að hann hélt því fram efnahagslegri velsæmd Þýskalands væri ógnað af fjölda múslímskra innflytjenda og tíðum barneignum Tyrkja í landinu og að „allir gyðingar deili ákveðnu geni".

Um mánaðamótin samþykkti bankaráð seðlabankans einróma að óska eftir brottrekstri Sarrazin, en þar sem hann var pólitískt skipaður í bankann hafði forsetinn einn umboð til að reka hann.  Í yfirlýsingunni í kvöld segir að endingu að bankaráðið þakki Sarrazin fyrir störf hans í bankanum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert