Stærsta „Kringla“ heims er tóm

Rólegt er um að litast á göngum verslunarmiðstöðvarinnar í Dongguan.
Rólegt er um að litast á göngum verslunarmiðstöðvarinnar í Dongguan.

Verktakafyrirtæki í Dongguan í Kína misreiknaði sig illilega þegar það reisti stærstu verslunarmiðstöð heims. Um 1.500 verslunarrými eru í miðstöðinni og eru þau flest tóm. Framkvæmdin þykir dæmi um hvernig verktakar hafi farið offari í þessu fjölmennasta ríki heims.

Til samanburðar eru um 130 verslanir og fyrirtæki í Kringlunni og er verslunarmiðstöðin í Dongguan því ríflega 11 sinnum stærri í verslunarrýmum talið. Ber hér á móti að hafa í huga að í Kína er risavaxinn neytendamarkaður og getur reikningsskekkja í rekstraráætlun því haft meiri afleiðingar í fjármunum talið en á dvergvöxnum markaði eins og á Íslandi. 

Annað stjarnfræðilegt dæmi er frá innrihluta Mongólíu þar sem borgaryfirvöld í Ordos vörðu 17 milljörðum kínverskra júana í að reisa borg fyrir milljón manns. Borgin er nú sannkölluð draugaborg en íbúarnir eru nú aðeins um 30.000.

Sannkölluð fasteignabóla er nú í Kína en fram kemur í grein Jonathan Kuperman, blaðamanns og fyrrverandi stjórnanda hjá fasteignafyrirtækinu CB Richard Ellis, í pistli á vefnum China.org að í Haikou hafi verð á íbúðarhúsnæði hækkað um 20% á mánuði - þetta er ekki prentvilla - og íbúðakjarnar með lúxusíbúðum sprottið upp eins og gorkúlur víðsvegar um landið.

Kuperman segir að vandamálið sé ýmist offramboð eða skortur á húsnæði.

Almennt séð snúist vandinn þó um skuldir, þar sem tekin séu lán til að reisa byggingar sem eru síðan keyptar með lánum. Til að ná jafnvægi á markaðnum þurfi kínversk stjórnvöld að hafa hemil á fasteignalánum.

Kínversk stjórnvöld þurfa að hans mati að ákveða hvort þau vilji leggja ofurkapp á 9-10% hagvöxt eða kæla hagkerfið svo komast megi hjá því að fasteignabólan springi og valdi erfiðleikum í hagkerfinu næstu árin.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert