Foreldrar rændu stúlknanna líða martröð

Sópað upp eftir sprengjutilræðið mannskæða í Abuja í Nígeríu .
Sópað upp eftir sprengjutilræðið mannskæða í Abuja í Nígeríu . mbl.is/afp

Örvinglaðir foreldrar á annað hundrað stúlkna sem rænt var í ríkinu Borno í norðausturhluta Nígeríu í gær hvöttu til þess í dag að bundinn yrði endi á martröð þeirra og stúlkurnar leystar úr haldi. Að mannráninu stóðu Boko Haram, sveitir íslamskra uppreisnar- og öfgamanna.

Ræningjarnir voru vel vopnum búnir er þeir létu til skarar skríða í Chibok-hera í fyrrakvöld og rændu stúlkunum af skólavist sinni. Aðeins nokkrum stundum áður biðu 75 manns bana í sprengjutilræði á strætisvagnastöð í útjaðri bæjarins Abuja. Hefur skuldinni verið skellt á Boko Haram vegna hennar.

„Þeir námu dóttur mína á brott,“ sagði kona frá Chibok sem vildi ekki láta nafn síns getið vegna óvissunnar um afdrif stúlkubarnanna. „Ég veit ekki hvað til bragðs skal taka,“ bætti hún við og hvatti stjórnvöld til að hafa hendur í hári ræningjanna. „Þau eiga ekki að líða þessum morðingjum að eyðileggja drauma dætra okkar.“

Faðir annarrar stúlku segir tímann frá ráninu hafa verið hreinustu martröð. „Bærinn er allur í sorg,“ sagði hann.

Boko Haram liðarnir réðust inn í skólann eftir sólsetur og í aðgerðum sínum lögðu þeir eld að nokkrum byggingum áður en þeir hófu skothríð á sveitir öryggisvarða sem gættu skólans.

Uppreisnarsveitir Boko Haram í Nígeríu urðu til fyrir um fimm árum og hafa þær skotið íbúum þessa fjölmennasta Afríkuríkis skelk í bringu. Þær hafa ítrekað ráðist gegn skólum í héraðinu frá 2009 og fellt í þessum aðgerðum mörgþúsund manns. 

Vegna vaxandi ofbeldisverka samtakanna hefur mörgum skólum verið lokað í norðausturhluta Nígeríu. Óljóst er hvers vegna skólinn í Chibok var starfræktur en þar var krökkt nemenda sem voru að undirbúa sig fyrir próf í vikunni. 

Sjónarvottar segja að uppreisnarmenn hafi drepið lögreglumann og hermann í skotbardaga er þeir brutu sér leið inn í skólann. Neyddu þeir stúlkurnar síðan út og ráku þær upp á vörubíla sem óku með þær í átt til afskekkts svæðis þar sem kjarrlendi er algengt. 

Hermt er að stúlkurnar sem numdar voru á brott hafi verið á annað hundrað. Tekist hefur að greina slóð bíla uppreisnarmannanna og stendur eftirför og leit að þeim yfir. Í þeim aðgerðum taka hersveitir þátt og hafa þyrlur sér til fulltingis en leitað er að stúlkunum í skóglendi sem talið er að þær séu faldar á.

Svæðið er stórt og skóglendið nær meðal annars inn í grannríkin Cameroon og Níger. Á landamærum þeirra er eftirliti ábótavant ef það er á annað borð eitthvert. Eiga skæruliðar og uppreisnarsveitir því greiða leið fram og til baka milli landanna.

Goodluck Jonathan Nígeríuforseti og her landsins hafa reynt að telja mönnum trú að Boko Haram væru á fallanda fæti sem hreyfing og styrkur hennar færi hratt þverrandi. Þökkuðu þeir það mikilli sókn gegn samtökunum í norðausturhluta Níger í maí í fyrra.

Gríðarleg sprengjutilræði að undanförnu, m.a. í nokkurra kílómetra fjarlægð frá stjórnarráðinu í Abuja, og aðgerðir gegn varnarlausu námsfólki, hafa undirstrikað rækilega hættuna sem af hinum íslömsku öfgamönnum stendur.

Þótt stúlknaránið sé mál málanna í Nígeríu og aðalfrétt allra fjölmiðla hefur stjórnarher landsins ekkert viljað tjá sig um tilræðið og allt er á huldu um björgunaraðgerðir og hvort þær séu yfir höfuð í gangi.

Á meðan bíða foreldrar stúlknanna og örvænta. „Við höfum lagst á bæn,“ sagði móðir einnar stúlkunnar í Chibok. „Það er allt og sumt sem við getum gert.“

Fréttir mbl.is:

Nokkrum stúlkum tókst að flýja

Yfir 100 stúlkum rænt

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert