Alsírbúar ganga til kjörklefanna

Abdelaziz Bouteflika, forseti Alsír, greiðir hér atkvæði í forsetakosningum landsins …
Abdelaziz Bouteflika, forseti Alsír, greiðir hér atkvæði í forsetakosningum landsins sem fara fram í dag Mynd/AFP

Í dag fara fram forsetakosningar í Norður-Afríkuríkinu Alsír. Talið er líklegt að núverandi forseti landsins, hinn 77 ára gamli Abdelaziz Bouteflika, hljóti endurkjör. Hann hefur verið forseti landsins frá árinu 1999. 

Öfugt við nágrannaríkin í Norður-Afríku kom Arabíska vorið aldrei til Alsír. Einhver mótmæli brutust vissulega út en þau náðu aldrei að magnast upp líkt og í nágrannalöndunum. Andstæðingar Bouteflika hafa í kosningabaráttunni sakað hann um mikla spillingu. 

Alls eru sex í framboði í kosningunum. Bouteflika hefur verið afar lítið áberandi í kosningabaráttunni en þrátt fyrir það spá menn honum stórsigri. Einhverjir hafa lýst yfir áhyggjum af heilsu Bouteflika eftir að hann fékk hjartaáfall í fyrra. Eftir hjartaáfallið hefur hann verið mun minna áberandi en hann áður var. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert