Mannskæðasta slys í sögu Everest

Everest er 8.848 metrar á hæð. Grunnbúðir eru í um …
Everest er 8.848 metrar á hæð. Grunnbúðir eru í um 5.300 m hæð en snjóflóðið féll í 5.800 hæð. AFP

Að minnsta kostii 12 eru sagðir látnir í snjóflóði sem féll í hlíðum Everestfjalls snemma að morgni föstudags, í um 5.800 metra hæð, tæpum 500 metrum ofan við grunnbúðir. Nokkurra til viðbótar er saknað, að því er fram kemur á vef BBC. Þetta mun vera mannskæðasta slys í sögu Everestferða.

Háannatími er nú á Everest og fjöldi göngumanna í grunnbúðum, þar á meðal tveir Íslendingar, þau Vilborg Arnar Gissurardóttir og Ingólfur Axelsson. Þau eru þar við hæðaraðlögun næstu vikurnar. Grunnbúðir eru í 5.364 m hæð, en Vilborg Arna sagði frá því á bloggi sínu í gær að hún hefði farið í hæðaraðlögunargöngtúr á miðvikudag upp í 5.800 metra hæð, sömu hæð og flóðið féll.

Aldrei fleiri látist í einu slysi á Everest

Snjóflóðið féll um klukkan 06:45 að staðartíma, um 01:00 í nótt að íslenskum tíma. BBC hefur eftir talsmanni ferðamálaráðuneytis Nepal, Madhusudan Burlakoti, að þrjár björgunarþyrlur hafi verið sendar á svæðið til að aðstoða við leitina í snjóflóðinu.

A.m.k. sex hinna látnu eru sjerpar, nepalskir leiðsögumenn, sem höfðu lagt af stað upp hlíðar fjallsins snemma til að undirbúa leiðina fyrir fjallgöngumenn dagsins.

Afp-fréttaveitan hefur eftir sérfræðingi að þetta sé mannskæðasta slys sem orðið hefur síðan fjallgöngur hófust á Everest. Frá því Edmund Hillary og Tenzing Norgay gengu á tindinn fyrstir manna árið 1953 hafa yfir 3.000 manns einnig náð þeim afganga, en yfir 300 manns hafa látið lífið á leiðinni.

Mannskæðasta slys á Everest til þessa varð árið 1996, þegar átta göngumenn létust í leiðangri sem síðar var skrifuð um bókin Into Thin Air. Á síðasta ári létust alls átta á leiðinni á tindinn.

Síðast heyðist frá Vilborgu Örnu úr grunnbúðum Everest í gær, 17. apríl. Þá sagði hún m.a. frá hæðaraðlögunargöngutúr sem hún fór upp í 5.800 metra hæð. „Við gengum upp í camp 1 á Pumori sem er ákaflega formfagurt fjall en jafnframt eitt það hættulegasta í Himalajafjallgarðinum. Fjallið hefur líka haft mikil áhrif á íslenska fjallamennsku því þrír Íslendingar hafa látið lífið á fjallinu.“

Ingólfur Axelsson lét síðast heyra frá sér úr grunnbúðum Everest hinn 15. apríl. Saga Garðarsdóttir leikkona gekk í grunnbúðir ásamt Ingólfi en mun komin aftur til byggða í Nepal.

Uppfært kl. 8:24: Fyrstu fregnir hermdu að minnst sex væru látnir en sú tala hefur síðar hækkað upp í níu og loks tólf. Enn er nokkurra saknað.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert