Skipið tók skarpa beygju og sökk

Björgunaraðgerðir við strendur S-Kóreu hafa haldið áfram í allan dag.
Björgunaraðgerðir við strendur S-Kóreu hafa haldið áfram í allan dag. JUNG YEON-JE

Enn er óljóst hvers vegna farþegaferjan Sewol frá S-Kóreu sökk, en þeir sem stýra rannsókn á slysinu eru að kanna hvort kröpp beygja sem skipið tók hafi getað leitt til þess að farmur skipsins hafi færst til og skipið hafi í kjölfarið lagst á hliðina.

Um 350 voru um borð. 268 er enn saknað en 179 var bjargað. Búið er að finna 28 lík. Tveir kafarar komust í farangursrými ferjunnar í dag, en þeir fundu enga sem voru um borð þegar ferjan sökk.

Lee Joon-seok, skipstjóri ferjunnar, var handtekinn í dag. Hann bað þá sem lifðu af og ættingja þeirra sem er saknað innilega afsökunar á slysinu. „Mér þykir þetta afar leitt og ég skammast mín. Ég veit ekki hvað ég á að segja,“ sagði hann þegar hann var leiddur burt í handjárnum.

Tvær kenningar hafa komið fram um hvers vegna ferjan sökk. Annars vegar að stjórnendur skipsins hafi gert mistök með því að beygja mjög skarpt. Verið er að rannsaka hvort snöggt breyting á stefnu skipsins hafi geta hreyft farm þess þannig að það lagðist á hliðina. Aðrir telja líklegast að ferjan hafi steytt á skeri.

Birt hafa verið myndskeið sem farþegar tóku um borð áður en ferjan sökk, en það tók hana um tvo klukkutíma að sökkva. Athygli hefur vakið hversu allir um borð voru rólegir. Farþegar voru ítrekað beðnir um að bíða kyrrir því hjálp væri á leiðinni. Talið er hugsanlegt að þessi fyrirmæli hafi orðið til þessa að fleiri fórust en nauðsynlegt var.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert