Frakkar lausir úr prísund

Pierre Torres (t.v.) og Nicolas Henin.
Pierre Torres (t.v.) og Nicolas Henin. AFP

Fjórir franskir fjölmiðlamenn, sem hefur verið haldið föngnum í Sýrlandi í tíu mánuði, eru nú frjálsir ferða sinna. Francois Hollande, forseti Frakklands, sagði í morgun að ástand Eduoards Elias, Didiers Francois, Nicolas Henins og Pierres Torres væri gott þrátt fyrir að þeir hefðu þurft að búa við skelfilegar aðstæður undanfarna mánuði.

Tyrkneskir hermenn fundu mennina fjóra á afskekktu svæði við landamæri Sýrlands nú í nótt. Þeir voru með bindi fyrir augun og þá voru hendur þeirra einnig bundnar saman, að því er segir í frétt AFP.

Hermennirnir héldu fyrst að þeir væru smyglarar og fóru með þá beinustu leið á næstu lögreglustöð, en þar kom hið rétta í ljós.

„Ég er mjög ánægður að vera frjáls,“ sagði Francois. „Við viljum þakka tyrkneskum stjórnvöldum, því þau hjálpuðu okkur. Það er mjög gott að geta séð skýin, gengið og talað frjálslega.“

Búist er við því að þeir komi til Frakklands seint í dag eða í fyrramálið.

Pierre-Yves Henin, faðir Henins, sagði við AFP að mennirnir væru á leiðinni í flugvél sem færi með þá heim til Frakklands. Hann bætti því við að þeir væru jafnframt í sérstaklega góðu skapi.

Francois og Elias voru á sínum tíma handteknir af óþekktum manni í borginni Aleppo í Sýrlandi. Henin og Torres hurfu hins vegar þegar þeir voru að störfum í bænum Raqqa í norðurhluta Sýrlands.

Frönsk stjórnvöld hafa lengi gert allt sem í valdi þeirra stendur til að fá mennina lausa. Mannréttindasamtök víða um heim hafa enn fremur hvatt sýrlensk stjórnvöld til að leysa þá úr haldi. Enn er einhverjum fjölmiðlamönnum haldið föngnum í landinu, eftir því sem fram kemur í frétt AFP, en þar á meðal er bandaríski blaðamaðurinn James Foley.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert