Komið yrði í veg fyrir ofbeldi og átök

Frans páfi hvatti alþjóðasamfélagið til þess að koma í veg fyrir ofbeldi í Úkraínu í páskapredikun sinni í dag í kjölfar þess að fjórir féllu í skotbardaga í austurhluta landsins í morgun. Hvatti hann ennfremur til friðsamlegrar lausnar í deilu Úkraínumanna og Rússa.

Fram kemur í frétt AFP að um 150 þúsund manns hafi safnast saman á Péturstorgið í Róm og nærliggjandi götum til þess að hlýða á predikun páfans. Páfinn hvatti að sama skapi til sátta í Venesúela og bað fyrir þeim þar sem átök hafa orðið á milli stjórnarliða og stjórnarandstöðu. Að sama skapi væri löngu orðið tímabært fyrir andstæðar fylkingar í Sýrlandi til þess að semja um frið sín á milli sem lengi hefði verið beðið.

Frans páfi bað einnig fyrir þeim sem veikst hafa af ebóla-veirunni meðal annars í Síerra Leone, Líberíu og víðar í Vestur-Afríku. Útbreiðsla hennar væri afleiðing afskiptaleysis og mikillar fátæktar. Hann bað einnig fyrir þeim sem orðið hefðu fyrir hryðjuverkaárásum í Nígeríu og ofbeldi vegna átakanna í Mið-Afríkulýðveldinu og Suður-Súdan. 

Þá bað páfinn fyrir friðarumleitunum í Miðausturlöndum.

AFP
Páfinn ávarpar mannfjöldann í dag.
Páfinn ávarpar mannfjöldann í dag. AFP
AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert