Mikil spenna í loftinu í Boston

Öryggisgæsla kringum hlaupið hefur aldrei verið meiri.
Öryggisgæsla kringum hlaupið hefur aldrei verið meiri. AFP

Það er mikil spenna í loftinu í Boston í kringum maraþonhlaupið og gæslan mjög stíf. Þetta segir Ása Sigríður Eyjólfsdóttir, en hún er stödd í borginni ásamt eiginmanni sínum og nokkrum tugum annarra Íslendinga sem taka þátt í hlaupinu í ár. Á síðasta ári var gerð sprengjuárás við hlaupið og létust þá þrír og yfir 260 særðust. Þrátt fyrir það hefur þátttakan aldrei verið betri en í ár, en yfir 36 þúsund hlauparar eru skráðir til leiks og fjölgaði þeim um níu þúsund milli ára.

Ása segir að hún hafi aldrei áður séð jafn mikla gæslu og skipulag í kringum neitt hlaup, en hún hefur verið viðstödd fjölmörg slík á síðustu árum og fylgdist hún meðal annars með hlaupinu í París í fyrra.

Einar Júlíusson, eiginmaður Ásu, tekur þátt í hlaupinu, en Ása segir að allir hlauparar hafi þurft að vera með búnað og annað slíkt í glærum pokum og að áhorfendum sé bannað að vera með bakpoka. Þá sé gegnumlýsing á vissum svæðum og greinilegt að skipuleggjendur hlaupsins hafi haft allan varann á.

Í heild eru skráðir 35 Íslendingar í hlaupið, en Boston maraþonið er eitt hið stærsta í heiminum á hverju ári. Hægt er að fylgjast með hlaupurum á síðu hlaupsins, en fyrsti hópur hlaupara fór af stað fyrir nokkrum mínútum.

Frétt mbl.is: Gríðarleg öryggisgæsla í hlaupinu

Hlauparar gera sig klára fyrir Boston maraþonið í morgun.
Hlauparar gera sig klára fyrir Boston maraþonið í morgun. AFP
AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert