Fingur barnanna brotnir

Kafarar synda um í myrkum sjónum við flak ferjunnar. Þeir leita að líkum barnanna. Í káetunum og á göngunum. Farþegum suður-kóresku ferjunnar var sagt að halda kyrru fyrir er hún fór að sökkva. Öryggis síns vegna. Flestir festust um borð og drukknuðu.

Meirihluti farþeganna voru ungir framhaldsskólanemar á leið í páskafrí. Vika er síðan ferjan sökk. Enn er fjölmargra saknað.

Flest líkin sem fundist hafa undanfarna daga eru með brotna fingur, líklega vegna þess að unga fólkið reyndi í örvæntingu að komast út úr ferjunni er vatnið tók að streyma inn.

„Við erum þjálfaðir til að takast á við erfiðar aðstæður, en það er erfitt að vera hugrakkur þegar maður sér líkin fljóta um í dökku vatninu,“ segir kafarinn Hwang Dae-sik við Reuters-fréttastofuna. Í dag verða 25 nemendur sem fórust með ferjunni jarðaðir í höfuðborginni Seoul.

Saksóknarinn sem fer með rannsókn málsins hefur gert húsleit á heimili eins helsta eiganda skipafélagsins, Chonghaejin Marine Co. Ltd, sem átti og rak ferjuna. Einnig var gerð húsleit á heimili sonar eigandans og í kirkju sem hann tengdist. 

Eigandinn fékk fjögurra ára fangelsisdóm á tíunda áratugnum vegna fjársvika. Ekki er vitað hvort að fjármál skipafélagsins hafi verið í lamasessi. Suður-kóresk yfirvöld eru þekkt fyrir að gera mikið úr húsleitum í glæparannsóknum, til að sýna fram á að verið sé að rannsaka mál sem eru umtöluð í fjölmiðlum.

Kafararnir sem leita líka í flaki ferjunnar geta verið á kafi í eina klukkustund í senn. 

Ferjan Sewol fór frá Incheon, skammt frá Seoul á miðvikudag fyrir viku. Hún var á leið til eyjunnar Jeju sem er vinsæll ferðamannastaður.

Um borð voru 476, þar af 339 framhaldsskólanemar og kennarar þeirra. Aðeins tókst að bjarga 174 úr sjónum. Aðrir eru taldir af.

Búið er að finna 146 lík. „Við þurfum að þreifa okkur áfram og leita með höndunum,“ segir kafarinn Hwang. „Þetta er það erfiðasta og átakanlegasta sem ég hef þurft að gera á mínum ferli.“

Skipstjóri ferjunnar, Lee Joon-seok, hefur verið handtekinn. Þá hafa fleiri úr áhöfn skipsins verið handteknir, m.a. tveir stýrimenn og vélstjóri. Skipstjórinn er m.a. ákærður fyrir að hafa breytt stefnu skipsins án þess að hægja á því. Skipstjórinn og áhöfnin er m.a. sökuð um það að hafa yfirgefið ferjuna er hún var að sökkva. Hins vegar segja sjónarvottar að farþegunum hafi verið fyrirskipað að halda kyrru fyrir. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert