Sáttir stríðandi fylkinga

Samkomlag hefur náðst á milli Hamas-samtakanna og Fatah-hreyfingarinnar.
Samkomlag hefur náðst á milli Hamas-samtakanna og Fatah-hreyfingarinnar. AFP

Tvær helstu fylkingar Palestínumanna hafa náð sáttum og samkomulagi um að mynda samvinnustjórn á næstu vikum.

Sjö ár eru síðan slitnaði upp úr samstarfi fylkinganna Hamas, sem ræður Gazasvæðinu, og Fatah sem stjórnar heimastjórnarsvæðinu á Vesturbakkanum. Þetta er þó ekki í fyrsta skipti sem fylkingarnar hafa reynt að ná sáttum en fyrri tilraunir hafa hingað til mistekist.

Samkomulagið var tilkynnt á sameiginlegum blaðamannafundi þeirra í dag. Þar sagði að ætlunin væri að mynda samvinnustjórn innan næstu fimm vikna og halda síðan almennar kosningar innan sex mánaða fái þeir samþykki frá palestínska þinginu.

Hamas-samtökin eru skilgreind sem hryðjuverkjahópur af Ísrael, Bandaríkjunum og Evrópusambandinu.  

Hafnar skilyrðum Palestínumanna

Ísraelsmenn höfnuðu í gær skilyrðum Mahmouds Abbas, forseta Palestínumanna, fyrir því að framlengja friðarviðræðurnar sem Bandaríkjamenn höfðu milligöngu um að hófust. Viðræðunum á að ljúka um mánaðamótin.

Abbas sagðist eingöngu vera tilbúinn til að halda áfram viðræðum umfram frestinn hætti Ísraelsmenn byggingaframkvæmdum á herteknu landi. Þá sagði hann að skilgreina þyrfti landamæri Ísraels og ríkis Palestínumanna innan þriggja mánaða. Slíkum skilyrðum hafa stjórnvöld í Ísrael hins vegar hafnað.

Sprengjuárás á Gaza

Ísraelsk herþota varpaði sprengju á norðurhluta Gazasvæðisins eftir að tilkynnt var um samkomulagið. Sex manns særðust, þar af einn alvarlega. Svæðið er undir stjórn Hamas-fylkingarinnar. 

Árásin var gerð þegar þúsundir manna voru á götum úti að fagna samkomulaginu.

Ísraelsk stjórnvöld hafa engar skýringar gefið á árásinni.

Fögnuður braust út á Gazasvæðinu í kjölfar samkomulagsins.
Fögnuður braust út á Gazasvæðinu í kjölfar samkomulagsins. SAID KHATIB
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert