Abdullah með um 44% atkvæða

Abdullah Abdullah. fyrrverandi utanríkisráðherra Afganistan.
Abdullah Abdullah. fyrrverandi utanríkisráðherra Afganistan. AFP

Abdullah Abdullah, fyrrverandi utanríkisráðherra Afganistans, hefur enn forystu þegar búið er að telja 80% atkvæðanna í forsetakosningunum sem fram fóru í landinu í byrjun aprílmánaðar. 

Abdullah er með 43,8% atkvæða en hans helsti andstæðingar, Ashraf Ghani, kemur næst á eftir með 32,9%, að því er segir í frétt AFP.

Fái enginn frambjóðandi hreinan meirihluta atkvæða verður kosið aftur milli tveggja efstu í maímánuði og bendir nú allt til þess. Áformað er að endanleg úrslit kosninganna liggi fyrir um helgina.

Hvorki Abduallah né Ghani, sem er fyrrverandi hagfræðingur hjá Alþjóðabankanum, hafa í hyggju að draga sig í hlé og verður því að öllum líkindum kosið á milli þeirra í næsta mánuði. Stjórnmálaskýrendur benda hins vegar á að þeir geti, með einhverjum hætti, komist að samkomulagi til þess að koma í veg fyrir aðrar kosningar, sem eru bæði dýrar og tímafrekar. Fordæmi séu til staðar fyrir slíku. 

Í frétt AFP segir jafnframt að ásökunum um kosningasvindl hafi fjölgað mjög að undanförnu. Kjörstjórnin hyggst rannsaka þær og þess vegna hafa endanleg úrslit enn ekki verið tilkynnt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert