Aðgengi að þróunaraðstoð ekki batnað

AFP

Aðgengi að þróunaraðstoð fyrir milljónir Sýrlendinga hefur ekkert batnað, að sögn Ban Ki-moon, framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna. Ástandið sé enn afar slæmt og brjóti í bága við samþykktir öryggsráðs Sameinuðu þjóðanna sem og alþjóðalög.

Í febrúarmánuði kölluðu Sameinuðu þjóðirnar eftir því að stjórnvöld og stjórnarandstæðingar í Sýrlandi hleyptu flutningabílum með hjálpargögn inn í landið.

Það hefur hins vegar ekki gengið eftir. Enn fá milljónir ekki þá aðstoð sem þeir þurfa á að halda. Í nýrri skýrslu kemur fram að um helmingur sýrlensku þjóðarinnar þurfi á neyðaraðstoð að halda, og þá sem allra fyrst.

„Neyðaraðstoð er ekki eitthvað sem menn eiga að semja um. Það er eitthvað sem er leyfilegt í mætti alþjóðalaga,“ sagði Ki-moon.  

Athygli vakti að ályktun öryggisráðsins í febrúar var samþykkt einróma. Rússar, sem eru bandamenn Sýrlands, höfðu hafnað þremur síðustu ályktunum með stuðningi Kínverja, en að þessu sinni samþykktu þeir hana.

Flestar ályktanirnar hafa snúist um það að setja þrýsting á stjórnvöld í Sýrlandi frá því að borgarastyrjöldin braust út í landinu í marsmánuði árið 2011.

Samþykki Rússa og Kínverja þykir senda Bashar al-Assad, forseta Sýrlands, skýr skilaboð, en ríkisstjórn hans er sökuð um alvarleg mannréttindabrot í baráttu sinni við stjórnarandstæðinga og uppreisnarhópa.

Ban Ki-moon, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna.
Ban Ki-moon, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert