Franskur rapplistamaður í vandræðum

Ein skærasta stjarnan í franska rappheiminum, Rohff, var úrskurðaður í gæsluvarðhald í París á þriðjudag en hann er grunaður um að hafa ráðist á 19 ára verslunarmann í borginni. Fórnarlambinu er haldið sofandi í öndunarvél og er ekki úr lífshættu. Sá starfaði fyrir helsta keppinaut Rohff.

Rohff heitir réttu nafni Housni Mkouboi og er 36 ára gamall. Undanfarna mánuði hafa staðið yfir miklar deilur á milli hans og rapplistamannsins Booba. Hafa deilurnar brotist út í söngtextum og á samfélagsmiðlum. En á þriðjudag virðist hafa soðið upp úr því þá mætti Mkouboi ásamt nokkrum félögum sínum í verslunina Unkut í París. Hún er í eigu Booba og selur fatnað sem merktur er honum.

Átök brutust út í versluninni með þeim afleiðingum að ungi maðurinn slasaðist lífshættulega á höfði. Mkouboi gaf sig fram við lögreglu samdægurs og var úrskurðaður í gæsluvarðhald. Lögmaður hans segir að Mkouboi viðurkenni að hafa slegið manninn unga og hafa franskir fjölmiðlar heimildir fyrir því að á öryggimyndavélum megi sjá hann berja á verslunarmanninum.

Booba sem heitir réttu nafni Elie Yaffa og er 37 ára hefur ekki tjáð sig um atvikið opinberlega.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert