Navalny áfram í stofufangelsi

Dómstóll í Moskvu komst að þeirri niðurstöðu í dag að framlengja beri stofufangelsi yfir þekktum rússneskum stjórnarandstæðingi, Alexei Navalny, en því hefur hann sætt frá febrúarmánuði. Er það nokkur sigur fyrir stuðningsmenn Navalny sem töldu víst að hann yrði færður í fangelsi. 

Navalny sem er 38 ára gamall hefur óhræddur gagnrýnt Vladímír Pútín, forseta Rússlands, á umliðnum árum. Sjálfur segir hann að sú gagnrýni hafi orðið til þess að hann sé nú ofsóttur í heimalandinu. Í júlí í fyrra var Navalny dæmdur í fimm ára fangelsi fyrir fjársvik og staðfesti áfrýjunardómstóll sakfellinguna í október. Áfrýjunardómstóllinn batt refsinguna hins vegar skilorði og var Navalny því sleppt úr haldi.

Í febrúar var Navalny aftur handtekinn og hann færður í stofufangelsi vegna nýrra ásakana um fjársvik. Ekki hefur verið réttað í því máli en það snýr að tvöfalt hærri upphæð en hann var dæmdur fyrir í fyrra. Verði Navalny fundinn sekur er því víst að löng fangelsisvist bíður hans.

Navalny var færður fyrir dómara á þriðjudaginn síðastliðinn vegna ásakana um að hafa brotið skilmála stofufangelsisins. Navalny sem ekki má nota Internetið var sagður hafa sett inn færslu á samfélagsmiðilinn Twitter. Hann harðneitaði því en dómari sektaði hann engu að síður um jafnvirði einnar milljónar íslenskra króna.

Í dag var Navalny svo aftur færður fyrir dómara og ákveðið að framlengja stofufangelsið um sex mánuði. Var það nokkur léttir fyrir hann enda var, eins og áður segir, talið að hann yrði fluttur í fangelsi fyrir skilmálabrotið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert