Sovéskt geimfar selt á uppboði

Sovéska geimfarið Vozvrashchayemi Apparat verður á næstunni sett á uppboð í Brussel. Það er uppboðshúsið Lempertz sem hyggst fagna nýju útibúi í Belgíu með því að bjóða geimfarið upp en þetta er í fyrsta skipti sem geimfar er boðið upp í Evrópu.

Geimfarið var notað á áttunda áratug síðustu aldar og ferðuðust þrír sovéskir geimfarar með því út í geim og aftur til baka. Vozvrashchayemi Apparat hefur verið gert upp frá grunni og ber nú engin merki þess að hafa snúið aftur til jarðar úr geimferðum.

Talið er að geimfarið fari á allt að 1,4 milljónir evra, jafnvirði um 215 milljóna íslenskra króna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert