Gagnrýnir aðgerðaleysi Rússa

John Kerry utanríksiráðherra Bandaríkjanna.
John Kerry utanríksiráðherra Bandaríkjanna. AFP

John Kerry, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, segir að aðgerðaleysi rússneskra stjórnvalda eigi eftir að reynast Rússum dýrkeypt. Hann gagnrýnir stjórnvöld í Moskvu fyrir að láta hjá líða að grípa til aðgerða til að draga úr spennunni í austurhluta Úkraínu.

Á blaðamannafundi í gærkvöldi sagði Kerry að á meðan Rússar stæðu aðgerðalausir væru aðskilnaðarsinnar, hliðhollir þeim, að hertaka opinberar byggingar og ráðast á úkraínskar herstöðvar í borgum í austurhluta landsins.

„Svo það sé á hreinu: Ef Rússar stíga fleiri skref í þessa átt mun það ekki bara vera alvarleg mistök, það mun vera dýr mistök,“ sagði hann og bætti því við að Bandaríkjamenn myndu beita þeim frekari refsiaðgerðum ef Rússar hugsuðu ekki ráð sitt.

Hann nefndi að viðskiptaþvinganir Bandaríkjanna hefðu nú þegar haft töluverð áhrif á rússneskan fjárhag. Tiltrú fjárfesta á rússnesku efnahagslífi væri minni en áður og að þeir hefðu nú þegar fært um sjötíu milljarða Bandaríkjadala, jafnvirði 7.859 milljarða króna á gengi dagsins í dag, úr landi, að því er segir í frétt AFP.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert